Varðandi spindilhalla, næst þegar þú ferð í bónus skaltu velta fyrir þér hönnuninni á hjólunum undir kerrunni, og ímyndaðu þér svo hvernig kerran myndi hegða sér ef hjólin væru fest með einum bolta beint ofan á hjólið,
Þetta hafði Leó M Jónsson um spindilhalla að segja,
Stýrisvalarhalli fram- eða afturávið (Caster)
Með því að halla stýrisveli þannig að neðri spindilkúla sé framar en sú efri (jákvæður halli) eykst stefnufesta bíls á ferð. Stýrisvalarhallinn fram á við að neðan gerir það að verkum að hjólmiðjan lendir aftar en miðlína stýrisvalarins. Verkuninni má líkja við snúningshjól á skrifstofustól. Þegar stóllinn er færður í ákveðna átt snýst hjólið og ,,eltir" vegna þess að hjólmiðjan er aftar en stólfóturinn. Of lítill halli fram á við veldur því að bíll rásar; er laus á miðjunni, eltir rákir í malbiki, leitar til hliðar í halla o.s.frv.

Hér hefur stýrisveli verið hallað aftur að ofanverðu um 30° (Hallinn er ýktur, myndarinnar vegna, en hann er sjaldan hafður meiri en 6° í algengum breyttum jeppum). ,,Caster-hallinn" er hér jákvæður um 30°. Hallaði stýrisvölurinn fram að ofanverðu væri ,,caster-hallinn" neikvæður. Lóðrétt miðlína stýrisvalarins lendir framar en lóðrétt miðlína hjólsins. Jákvæður ,,caster-halli" gerir það að verkum að hjólið leitast við að fylgja stefnu bílsins (eltir): Stýrið verður ívið þyngra og stöðugra; rásfesta bílsins meiri. Myndin til hægri er sígild samlíking sem sýnir áhrif jákvæðs ,,caster-halla". Snerilhjól skrifstofustóls: Lóðrétt miðlína hjólsins er aftan við lóðrétta miðlínu fótleggjarins - hjólið fylgir (eltir) akstursstefnu.
,,Caster"- hallinn er gefinn upp í gráðum. Hann breytist ekki á keyrslu, sé allt með felldu, en er er oftast stillanlegur. Hins vegar breytist ,,caster" sé bíll hækkaður þannig að lóðrétt fjarlægð á milli spindilkúlna aukist, - eukist hún t.d. með milliklossum eða breyttum klöfum, minnkar ,,caster" hallinn. Sé efri spindilkúlunni t.d. vent 180° þannig að hún snúi niður í stað upp eykst hins vegar ,,caster" hallinn. Jákvæður ,,caster" halli hefur áhrif á stýrið vegna þess að þegar lagt er á lækkar bíllinn örlítið þeim megin sem snýr út úr beygjunni. Of mikill jákvæður ,,caster" halli kemur fram á tvennan hátt: Í fyrsta lagi hefur hjól, sem er utar í beygju, tilhneigingu til að leggjast inn undir sig (beygja of mikið) þegar bíllinn leggst á það horn í beygju á talsverðri ferð. Í öðru lagi getur stýrið orðið óþægilega þungt á miðjunni - beinstefnu-tregða bílsins í venjulegum akstri verður beinlínis óþægileg.
Eftir því sem ég veit best mun 6° jákvæður ,,caster" vera talinn hæfilegur (ef ekki hámark) fyrir 36-38" dekk á Dana 44 hásingu. Þó getur ,,caster-hallinn" farið eftir ýmsum öðrum þáttum. Sem dæmi nefni ég að ,,caster" er mest um 3° í óbreyttum GM-jeppum á blaðfjöðrum en þó breytilegur eftir því hve hátt er undir bílinn. Í öðrum tilvikum getur ,,caster-hallinn" verið mun meiri - margir minnast t.d. stóra Bronco (árgerð 1978 og '79) sem er með ,,caster-halla upp á allt að 9,5°.
Þegar hásing, sem á að breyta, hefur verið tekin úr bíl, hefur reynst vera öryggi í því fólgið að stilla upp fyrir ,,caster" og ,,camber", t.d. með skabaloni, og sjóða spindilkúlufótinn öðru megin - setja síðan hásinguna í bílinn, festa henni og stilla þá fyrst upp hinum spindilkúlufætinum og sjóða. Mín reynsla er sú að með þessu móti séu meiri líkur á að ,,caster/camber" náist jafnir fyrir bæði hjólin. En þetta kann nú einnig að ráðast af þeim tækjabúnaði sem menn hafa yfir að ráða. (Hér má skjóta því inn í að í óvandaðri jeppum, t.d. frá S-Kóreu, eru afturhásingar iðulega skakkar - skakkt soðnar saman þannig að vísun, millibil og halli afturhjóla er rangur - stundum munar meira en tug gráða. Þetta getur valdið skertum aksturseiginleikum, óeðlilegri þvingun á hjól- og driflegum sem endast því skemur).
Stærðarmerking dekkja