Pajero - Langtímabras (áður: Undir milljón)

User avatar

Höfundur þráðar
muggur
Innlegg: 363
Skráður: 12.okt 2011, 15:16
Fullt nafn: Guðmundur Þórðarson

Pajero - Langtímabras (áður: Undir milljón)

Postfrá muggur » 28.jún 2013, 10:13

Sæl(ir)
Ákvað að stofna þennan þráð um jeppann minn þar sem reglulega koma spurningar hér á spjallið um jeppa undir milljón. Oftast eru menn að leita að bíl til sumarferða og eru að pæla í jeppum eins og Pajero, Patrol, Trooper eða álíka sem þá eru yfirleitt 10 ára eða eldri. Þetta er svona mín reynslusaga af þessu.

Bakgrunnur:
Er með fjögurra manna fjölskyldu og tvo meðalstóra hunda og vantaði því jeppa til að ferðast á á sumrin og var jeppinn hugsaður sem bíll númer tvö og ætti því ekki að vera í hinu daglega snatti. Jeppinn átti að vera óbreyttur eða mjög lítið breyttur (þ.e. Max 35 tommu dekk). Ég hef enga reynslu af viðgerðum og á engin verkfæri né hef ég aðstöðu en veit þó hvernig flest stykki í bíl líta út eftir að hafa unnið í varahlutaverslun á yngri árum. Treysti mér því svona í léttari viðgerðir eins og að skipta um bremsuklossa en lítið meira. Þannig að ekki sá ég fram á að kaupa eitthvert flak og gera upp eins og í mörgum þráðum hér á spjallinu sem ég les með mikilli aðdáun.

Valkostinir:
Budgetið var milljón og byrjaði ég leitina í byrjun júní 2011. Það er EKKI góður tími árs til að leita því að flestir virðast hugsa sem svo að þeir láti jeppagarminn sinn duga yfir sumarið til að skreppa í Þórsmörk/Kjöl eða hvað það nú er. Því var fátt um fína drætti á sölunum. Engu að síður þá prófaði ég mikið af þessum jeppum og niðurstaða mín var eftirfarandi:

Terrano: Of lítill fyrir mínar þarfir. Hafði einnig heyrt mikið af slæmum sögum um þá en þekki þó nokkra sem eru mjög ánægðir með þessa bíla.

Patrol: Flottir jeppar en þeir sem ég hafði efni á voru yfirleitt í slæmu ástandi, auk þess var ég búinn að lesa fullt af sögum um head-vandamál sem fældu mig frá þeim.

Trooper: Mér finnst hann ljótur, svo var umsögn Leo M ekki til að selja hann: 'Landbúnaðartæki' og 'Best að ræða um Trooper við fyrrverandi eigendur, þá fær maður sannleikann um þessa bíla'. Samt prófaði ég einn bensín trooper og hann var helvíti sprækur og skemmtilegur í keyrslu. Bíllinn var á bílasölu Guðfinns og ef þeir hefðu ekki verið svona mikið að reka á eftir mér þá hefði ég líklega keypt hann.

Land cruiser: Þeir fundust ekki undir milljón enda úr gulli að mati eigenda sinna.

Musso: Prófaði enga, hafði mikla fordóma eftir að hafa einu sinni tekið í svoleiðis og þurft að fara í öðrum gír upp kambana. En með túrbínu og svoleiðis dóti skilst mér að þetta séu eðalvagnar. En virka heldur litlir fyrir mig.

Amerískir: Lagði ekki í Explorer/Cheerokee útaf bensíneyðslu. Langar sjúklega í Econaline/Excursion/Suburban en það er bara of stórt dæmi fyrir mig.

Pajero: Það var í raun jeppinn sem mig langaði í. Las mikið um þá og komst fljótt af grindarvandamálinu í þeim en fyrir utan það virtust þeir almennt álitnir góðir bílar. Skoðaði og prófaði marga. Stóð mig fljótlega að því að vilja bara facelift (1997-2000 árg) með 33-35 tommu kanta. Vildi fá mér 2.8 disel bílinn en flestir vrou þeir annaðhvort dýrir eða að grindin var farin í þeim. Sama gilti líka um 2.5 en hann fannst mér ansi traktoralegur.

Kaupin:
Þegar hér var komið sögu (ágúst) var ég orðinn ansi þurfandi og endurhugsaði málið dáldið og tókst að reikna mig niður á að m.v. litla keyrslu (ca 6 þús km/ár) væri munurinn milli disel og bensín kannski ekki svo mikill. Bensín bílarnir væru vanalega minna keyrðir og því heilllegri. Svo rak loks á fjörur mínar í lok ágúst bensín pajero, keyrður aðeins 135 þús km (4 eigendur). Dreif hann í Artic Trucks í ástandsskoðun og listinn sem ég fékk var eftirfarandi:
1. Þurrkurofi bilaður
2. Dagljósabúnaður bilaður, ljós að aftan slökkna ekki nema alveg sé svissað af
3. Þurrkublöð ónýt
4. Olíuleki aftan á báðum headum
5. Ballansstangarendi aftan h/m laus
6. Slag í efri klafa h/m
7. Komið slag í báðar neðri spindilkúlur
8. Vantar gler á bæði númersljós
9. Vantar ljós í hallamæli
10. Vantar smurbók
11. Vantar parkljós í kerrutengil, h/m
12. Kælivökvi: gamall og þarf að skipta um.
13. Vantar parkljós að framan og aðalljós h/m.
14. Gat í toppi eftir loftnet

Fékk þann dóm að grindin væri í mjög góðu lagi og ekkert ryð í bodyi fyrir utan smá yfirborðs-ryðbólur. Þeir reyndu að fá hann til að blása í flösku en það gekk ekki svo þeir töldu að headpakkningin væri í lagi þrátt fyrir ljótan kælivökva og olíulekinn væri tilkomin vegna ventlalokspakkninga. Eigandinn kom með smurbók sem var nokkuð góð. Ég ákvað að slá til og keypti bílinn á 850 þús. Rúllaði honum svo á verkstæði og lét gera við hjólabúnaðinn (spindilkúlur, spyrnu, ballanstangarenda) auk þess að skipta um vatnskassa (sem þeir í Bílson ráðlögðu mér). Varahlutakostnaður var 83 þús og viðgerðarkostnaður með smurningu var 112 þús, semsagt í heildina 195 þúsund og þá búinn að eyða 1045 þús í bílinn.

Pajero01_zps28243b41.jpg
Pajero01_zps28243b41.jpg (31.17 KiB) Viewed 9924 times



Reynslan
Ýmislegt smálegt lagaði ég sjálfur eins og að skipta um perunar, læsingu á varadekkshlíf, mixaði skinnur til að loka toppnum, spreyjaði rúðufals með silikon spreyi, skipti um þurrkurofa og lét hjólastilla hann. Þá þurfti að endurforrita aukalykilinn og kaupa nýjar fjarstýringar fyrir samlæsingarnar. Keypti númerljós á partasölu en það var ekki alveg í lagi svo ég keypti annað og gat sameinað þessi tvö í eitt sem virkaði. Kostnaður við þetta var líklega um 55 þús.

Nú var farið að nálgast vetur og dekkin sem hann var á voru fúin, misslitin og ansi eydd en þó lögleg. Keypti notuð nelgd nagladekk (33 tommu) undir hann og með umfelgun kostaði það 100 þús. Ákvað að láta hjólastilla hann aftur og var það 12 þús. Eftir veturinn tók ég naglana úr dekkjunum.

Mikið var ferðast um sumarið og stóð hann sig mjög vel. Reyndar eftir Þórsmerkurferð tók ég eftir því að forðabúrið var tómt og þurfti að bæta einnig á vatnskassann. Taldi ég að þetta væri bara vegna snöggkælingar í ánum (sem ég held að meiki ekki sense). Leið svo haustið án vandræða en á nýju ári (2013) fór aftur að hverfa vatn. Dreif ég hann í smurningu og lét skipta um vökva á drifum og millikassa, kostaði það mig um 30 þús.

Ákvað svo að láta laga olíulekann á headunum og keypti ný kerti, þræði og ventlalokspakkningar ásamt kertaþráðahringjum. Bað um að kíkt yrði hvort ekki væri allt í lagi með headið. Fékk þann dóm að í lagi væri með headið en fljótlega eftir viðgerðina fór vatnstapið að aukast en olía var samt fín. Skoðaði þetta svo sjálfur og komu engar loftbólur í forðabúrið, andaði léttara en mundi svo að það þyrfti að prófa einnig undir álagi. Festi bensíngjöfina með tissue-rúllu í 3000 snúningum og viti menn, loftbólur!!!

Minn góði bifvélavirki lagðist nú undir feld og leitaði af sér allan grun og fann engan loftleka í kerfinu og próf sýndi að það var púst í kælivökvanum. Þannig að ég fór og keypti afganginn af headpakkningarsettinu sem Kistufell (Brautarholti) hafði selt mér hinar pakkningarnar, bætti við vatnsdælu og tímareymasetti. Kostnaður við þetta var 310 þús með öllu (varahlutir, vinna og vökvar).

Lenti í því að bílastæðahlið lokaðist á toppinn hjá mér og dró þakbogana aftur af bílnum. Miklar beyglur en sem betur fer tryggingamál. Kosturinn við þetta var að toppurinn var heilsprautaður og losnaði ég þar með við gatið í toppnum auk ryðbólanna sem voru nokkrar fyrir ofan framrúðuna.

Í maí fór ég sjálfur í bremsunar, skipti um klossa að framan og aftan auk diskana að aftan. Varahlutakostnaður var um 29 þús. Kláraði svo vökvaskiptin með því að láta skipta á sjálfskiptingunni sem kostaði 47 þús með nýrri síju.

Þannig að nú kemur sjokkið:
Mér reiknast til m.v. Það sem að ofan er ritað að á þessum tæpu tveimur árum hafi ég eytt um 780 þús í viðhald á bílnum. Á sama tíma er ég búinn að keyra 11 þús km. Nú ef ég miða við meðaleyðslu upp á 17 lítra á hundraðið (líklega smá ofmat) þá þýðir þetta um 1870 lítra í eyðslu og ef verðið á lítranum er 245kr þá er ég búinn að eyða tæpum 460 þús í bensín. Þannig að kostnaður við rekstur bílsins (fyrir utan bifreiðagjöld og tryggingar) er um 1,24 milljónir og þar af er bensín einungis um 37% af tölunni (ef hann eyddi 12 lítrum á hundraðið væri bensínkostnaður 29% af rekstri). Mín niðurstaða er því sú að ef þú ætlar að fá þér gamlan jeppa þá skiptir eyðsla ekki öllu máli.

Óheppinn?
Var ég óheppinn með eintak? Ég held ekki, allt þetta sem upp er talið er ósköp eðlilegt fyrir bíl sem kom á götuna í Október árið 1997. Vissulega hefði verið hægt að gera hlutina aðeins ódýrari, sleppa vökvaskiptum, sleppa því að skipta um tímareim og vatnsdælu (var 3 ára í bílnum), nota gömlu kertaþræðina, sleppa samlæsingum og öðru pjatti, en ég hugsa þennan bíl sem eign (enda verðlaus í augum flestra). Bíllinn hentar okkur ágætlega, er bíll númer tvö og á helling eftir. En ég geri mér grein fyrir að hann mun þurfa viðhald áfram en ég vona að ég sleppi með 200 til 250 þús á ári á næstunni.

Lokaorð:
Ég vona að þessi langloka mín hjálpi einhverjum sem er í þeim hugleiðingum að kaupa sér gamlan jeppa. Ef ég ætti að gera þetta aftur þá held ég að það eina sem ég gerði öðurvísi væri að kaupa svona öldung sem búið væri að fara í headið á. Þegar bílar eru komnir á þennan aldur þá held ég að það sé í raun bara lottóvinningur að ekki þurfi að fara í headið fljótlega, svona m.v. Það sem ég hef lesið.

IMG_0749_zps721e1420.jpg
IMG_0749_zps721e1420.jpg (121.71 KiB) Viewed 9924 times
Síðast breytt af muggur þann 09.nóv 2023, 13:35, breytt 2 sinnum samtals.


----------------------------------------------
Guðm. Þ.
Pajero 1998 V6 3000 24V

User avatar

Tómas Þröstur
Innlegg: 330
Skráður: 19.mar 2010, 10:03
Fullt nafn: Tómas Þröstur Rögnvaldsson

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá Tómas Þröstur » 28.jún 2013, 11:08

Svona er bara líf jeppaeigandans (bíleigandans). Margir vilja meina að það sé fyrirbyggjandi að skifta reglulega um kælivökva til að lengja líf hedda og viðhalda tæringavörn. Ég hef reynt að hafa þann háttinn á og það gæti hjálpað að ekki hefur þurft að líta á hedd í mínum bílum. Annar 22 ára ekin 340.000 og hinn 14 ára ekin 231.000

User avatar

Höfundur þráðar
muggur
Innlegg: 363
Skráður: 12.okt 2011, 15:16
Fullt nafn: Guðmundur Þórðarson

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá muggur » 28.jún 2013, 11:14

Tómas Þröstur wrote:Svona er bara líf jeppaeigandans (bíleigandans). Margir vilja meina að það sé fyrirbyggjandi að skifta reglulega um kælivökva til að lengja líf hedda og viðhalda tæringavörn.


Sammála þér, enda mun ég skipta um kælivökva á hverju ári meðan ég á þennan jeppa. Já þetta er það sem má búast við með svona gamla jeppa, og ég held að menn þurfi að fara ansi hátt upp til að vera nokkuð öruggir um að sleppa við svona, ekki mikið meira en 5 ára bíl eða svo.
----------------------------------------------
Guðm. Þ.
Pajero 1998 V6 3000 24V

User avatar

SHM
Innlegg: 61
Skráður: 02.feb 2010, 00:06
Fullt nafn: Sigurbjörn H. Magnússon
Bíltegund: Patrol
Staðsetning: Hafnarfjörður

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá SHM » 28.jún 2013, 11:47

Áhugaverð og vel skrifuð frásögn.
Patrol 2002 38"


gambri4x4
Innlegg: 205
Skráður: 31.jan 2010, 23:00
Fullt nafn: Víðir L Hjartarson
Bíltegund: Y60 Patrol 38"
Staðsetning: Húsavík
Hafa samband:

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá gambri4x4 » 28.jún 2013, 12:08

Gaman að lesa þetta en eg skil þó ekki eitt,,,sleppa Explorer eða Cherokee utaf bensíneyðslu og fá ser svo Bensín Pajero,,,,

Ekki það að Pajero eru snilldar bílar,,,

User avatar

Höfundur þráðar
muggur
Innlegg: 363
Skráður: 12.okt 2011, 15:16
Fullt nafn: Guðmundur Þórðarson

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá muggur » 28.jún 2013, 13:07

gambri4x4 wrote:Gaman að lesa þetta en eg skil þó ekki eitt,,,sleppa Explorer eða Cherokee utaf bensíneyðslu og fá ser svo Bensín Pajero,,,,

Ekki það að Pajero eru snilldar bílar,,,


He he... já en eins og segir síðar í þræðinum þá endurhugsaði ég þetta með disel/bensín. En á þeim tímapunkti var ég svo helsýktur af pajero-löngun að aðrir bensínhákar komu ekki til greina.
----------------------------------------------
Guðm. Þ.
Pajero 1998 V6 3000 24V


vidart
Innlegg: 138
Skráður: 07.sep 2011, 18:44
Fullt nafn: Viðar Þorgeirsson
Bíltegund: Toyota LC 90
Staðsetning: Reykjavík

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá vidart » 28.jún 2013, 13:18

Ég held að það sé mikið happaglappa þegar er verið að kaupa svona gamla jeppa nema að maður sé bifvélavirki og hafi mikið vit á jeppum og geti skoðað þá í þaula áður en þeir eru keyptir. Það er auðvitað líka vitað mál og þeir munu þurfa viðhald og það munar um það hvort maður geti gert það sjálfur eða þurfi að borga einhverjum fyrir það.

User avatar

Sævar Örn
Innlegg: 1919
Skráður: 31.jan 2010, 19:27
Fullt nafn: Sævar Örn
Bíltegund: Hilux
Staðsetning: Reykjavik
Hafa samband:

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá Sævar Örn » 28.jún 2013, 18:41

Þú ert seigur að telja þetta allt saman upp, aldrei myndi ég þora því, þá myndi ég ábyggilega hætta að nota bíl.



Svo er líka eins gott að kvensurnar okkar komist ekki að þessu leyndarmáli!! :o
Samband Íslenskra Suzukijeppaeigenda
http://sukka.is

Skúra- og ferðablogg ásamt öðrum fróðleik
http://sabi.is


Tollinn
Innlegg: 347
Skráður: 29.mar 2013, 22:24
Fullt nafn: Þorvaldur Einarsson

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá Tollinn » 28.jún 2013, 21:18

Glæsilegur pistill, var einmitt að kaupa einn 20 ára gamlan og er strax byrjaður að pjattast við hann, vona samt að ég lendi ekki í svona hremmingum alveg á næstunni

kv Tolli

p.s. flottur bíll hjá þér


Navigatoramadeus
Innlegg: 276
Skráður: 04.nóv 2012, 19:39
Fullt nafn: Jón Ingi Þorgrímsson
Bíltegund: Cruiser
Staðsetning: Álftanes

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá Navigatoramadeus » 28.jún 2013, 22:27

mjög skemmtilegur pistill, takk fyrir hann.

leyfi mér að bæta við (því þú lagðir ekki í Muzzo ;) hvernig mín reynsla af einum slíkum hefur verið;


ástæðan fyrir að ég valdi Musso umfram aðra (prófaði og kynnti mér fleiri) var;
ég treysti gamaldags olíuverki til að keyra á steinolíu sem ég og gerði þar til það var verðlagt af kortinu,
vélbúnaðurinn er aisin warn og bens (amk að hluta til) og flest einfalt sem ég treysti mér til að gera við,
laus við common-rail olíukerfi sem ég hef illan bifur á vegna flækjustigs og gríðarlegs kostnaðar þegar það hrynur,
fín multi-link fjöðrun að aftan, gott að keyra
gott pláss innan
ekki sídrif og með lokur að framan,
mamma hafði átt einn í ein 7 ár og sáralítið bilað,
verðlagningin hæfileg,


hann kostaði 1300þkr í ágúst 2011, 2,9 disel, árgerð 2005, ekinn 85þkm, beinskiptur á 31", með pallhúsi, krók og 2 göngum af dekkjum á felgum.

síðan eru komnir tæpir 20þkm, mestmegnis innanbæjar og engin stór viðgerðarsaga svo sem en tók saman ca hvað er búið að eyða í hann.

ekinn 85þkm í ágúst 2011

glóðarkerti og pakkningar (soggrein) 13þkr

2 olíuskipti 25þkr

100þkm yfirferð (allir vökvar og síur ) 30þkr

setti í hann mótorhitara (rafmagns) 15þkr

kross í stýrislið 3þkr

plata á oliuverk (vegna gangs) 10þkr

millikælir 10þkr (klaufaskapur fyrri eiganda, of löng skrúfa)

viftureim 4þkr

lega í stýrihjól viftureimar 6þkr

varahlutir og olíuskipti ca 115þkr

en ég hef reyndar gert allt sjálfur svo vinnulaun eru ekki hluti af þessu.

dieselnotkun 9l/100km (245kr/ltr) = 415þkr

samtals = 530þkr

ég læt það nú svosem eiga sig á 2 árum og er nýbúinn með 100þkm yfirferðina svo hann er góður næstu 10þkm eða vonandi það, annars fer að koma tími á rafgeymi fyrir veturinn og kúpling og afturhjólalegur eiga ekki langt eftir :/

en þetta með kælivökvann er mjög algengt, það fyrsta sem ég gerði bæði á Musso og Nissan var að skipta um olíur og kælivökva en ætli það kosti ekki svona 15-20þkr á verkstæði að skipta um kælivökva og á að gerast á ca 2ja -3ja ára fresti !

kv. Jón Ingi

User avatar

Höfundur þráðar
muggur
Innlegg: 363
Skráður: 12.okt 2011, 15:16
Fullt nafn: Guðmundur Þórðarson

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá muggur » 28.jún 2013, 23:41

Takk allir fyrir uppbyggileg komment.

Já Sævar hann var ansi nálægt því að enda í pressunni þessa viku sem tók að sannfæra betri helminginn um að það væri skynsamlegt að laga headið :-)

kv. muggur
----------------------------------------------
Guðm. Þ.
Pajero 1998 V6 3000 24V


ARG22
Innlegg: 54
Skráður: 26.sep 2012, 23:12
Fullt nafn: Aron Guðnason
Bíltegund: Ýmsar

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá ARG22 » 30.jún 2013, 11:22

Þetta er mjög áhugaverð grein hjá þér og sennilega mjög þörf í efnahagsumhverfinu í dag

Mér hefur alltaf fundist Pajeró flottir og þægilegir í akstri eða eins og einhver sagði maður fílar sig vel undir stýrinu
Það er náttúrulega alltaf spurning hversu vel bíllinn er að nýtast manni m.v hversu mikið fé hann bindur frá manni en ég keypti nú bara gamlan og ryðgaðan Musso árg "98 dísel 2.9TDI og sjálfskiptann árið 2011 hef ekið honum tæp 30þúsund km á bæði matarolíu, steinolíu, mótorolíu og dísel.
Ég á 3 börn frá 0 til 6 ára og eru þau því öll í bílstólum og Mússóinn er full mjór til að taka 3 bílstóla afturí en gott pláss að öðru leiti en hann er sennilega meiri traktor en Pajeró og þó ég veit það ekki.
Ég hef ekki tekið það saman hvað ég hef eytt í eldsneyti en get þó talið saman hvað viðhaldið hefur kostað en ég geri nær allt sjálfur.
Tveir dekkjagangar 33 og 36 tommur slapp frekar vel með 170þ notaðir gangar á felgum, upptekt á mótor komplett (slípisett+stimpilhringir+mótorblokk+glóðarkerti ofl sem var notuð allt úr Kistufellinu) 210þ, upptekt á túrbínu varahlutir og notuð túrbína 45þ, rúðuþurrkuarmar 8þúsund, legur í afturhásingu 30þ, spindilkúlur efri og neðri framan báðumegin 30þ, breyting á bílnum úr 31" í 36" kostaði um 100 en ég keypti breyttan bíl sem hafði oltið á klink og reif hann til grunna og aðal kostnaðurinn var í málningu, sparkel og skrúfum, loftsíjur og olíur á þessum 2 árum 30þ, vökvar (sjálfsk og kælivatn) 28þ.

Ég var sumsé óheppinn með eintak en keypti hann svosem á 300 kall og mátti segja mér það og hefur það bitnað fyrst og fremst á frítímanum og frúnni

Varahlutir og viðhald á þessum árum eru því 650þ og örugglega hægt að telja til eitthvað smálegt fyrir 50 þ þannig að 700 kall plús bíllinn sumsé 1000 þúsund plús sennilega 150 klst vinnu í frítíma sem ekki verður metin til fjár.
Hann eyðir að meðaltali 12 lítrum á 33" og 36" meðaltal sem gera 3600 lítrar og það sinnum 245kr/l erun 882þúsund en ég hef náttúrulega ekki eytt svo miklu í eldsneyti þar sem ég brenni ýmsu öðru líka

Þarna er þó búið að endurnýja fjári stóran part af bílnum en ég á eftir að ryðbæta hann eitthvað og sennilega breyta honum meira og örugglega kemur upp meira viðhald svo sem bremsur sem fer að koma tími á og kannski bodyhlutir.

BKV Aron

User avatar

Startarinn
Innlegg: 1157
Skráður: 01.aug 2010, 12:02
Fullt nafn: Ástmar Sigurjónsson
Bíltegund: Nissan Patrol '98

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá Startarinn » 30.jún 2013, 20:52

SHM wrote:Áhugaverð og vel skrifuð frásögn.


+1
"Ég sagði ekki að það væri þér að kenna,
Ég sagðist ætla að kenna þér um það"


Bjarni Ben
Innlegg: 82
Skráður: 23.nóv 2011, 10:12
Fullt nafn: Bjarni Benedikt Gunnarsson
Bíltegund: Willys

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá Bjarni Ben » 30.jún 2013, 22:09

Ég er einmitt í sama pakkanum með minn gamla dísel pajero, nema ég keypti hann á 300þús. Þessi saga sýnir mér að ég gerði rétt að kaupa svona mikið ódýran, því maður þarf að gera við gamla bíla, og þá er bara eins gott að eyða nógu ógeðslega litlu í þá þegar maður kaupir þá, og eyða svo peniningum í varahluti. :)
Bjarni Benedikt
Willysdellukall


Izan
Innlegg: 616
Skráður: 29.mar 2010, 10:56
Fullt nafn: Jón Garðar Helgason

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá Izan » 01.júl 2013, 01:03

Daginn

Þetta er skemmtileg lesning og áhugaverð.

Það er markt við þessa lýsingu sem hægt er að segja þér eftirá að hafi verið rangt mat hjá þér en í sjálfu sér engin ástæða til að bulla það í þér núna. Þegar ég kaupi bíla vil ég fyrst og fremst vita hvernig fólk hefur átt bílinn og hversu lengi, hver er búinn að þjónusta hann og hvernig. Útkrotaðar smur eða þjónustubækur heilla mig yfirleitt meira en "x" merki á rétta staði því að þá sér maður að eitthvað er buið að gera annað en að þefa af smurefnunum.

Í gegnum þessa lesningu finnst mér eiginlega stóra tapið vera þetta heddpakningarvandamál, það sem setti hlutina úr skorðum. Að mínu mati hefurðu verið óheppinn þar því að þetta var greinilega athugað vel fyrir þig í skoðuninni. Bílar á þessum aldir og með þessa kílómetrastöðu eiga ekkert að bila svona þ.e. heddið. Vandamálið er bara það að þó að þú hefðir keypt 3 milljón króna jeppa gætirðu alveg eins verið í sömu stöðu nema með mun dýrari varahluti. Ballancestangarendar, spindilkúlur o.s.frv. er bara slit sem verður alltaf svolítið meira í jeppum en fólksbílum því að t.d. vegurinn í Þórsmörk er ekki til þess fallinn að vernda þennan búnað. Hleyptu bara vel úr til að hlífa þessum búnaði í framtíðinni.

Þetta er dýrt sport til að stunda með því að láta fagmenn vinna oll viðhaldsverk í bílnum. Ég myndi ekki treysta mér í þann rekstur og það er líka ástæðan fyrir vefsíðum eins og þessari þar sem menn eru að miðla þekkingu milli sín, menn eru stöðugt að gera hluti sem þeir kunna ekki eða illa til að geta staðið undir rekstri jeppans. Þar þarf svolitið að velja og hafna, jeppinn minn fer samt stundum á verkstæði þ.e. ef ég treysti mér ekki til að vinna einhvert verk þannig að bíllinn geti bilað á versta stað. Einstaka búnaður fer líka oft í hendurnar á mönnum sem kunna með þá að fara.

Ég myndi halda að núna sértu kominn með fínasta bíl í hendurnar, búið að endurnýja það sem fyrri eigandi hafði trassað og mér sýnist bíllinn vera bara fallegur. Það þýðir ekki að hann verði viðhaldsfrír. Meðan þú ert að sulla í lækjunum á Þórsmerkurleið þarftu að vera duglegur að skipta um olíu á drifunum og þrífa upp hjólalegur, sérstaklega framan og smyrja undirvagninn helst eftir hverja dýfu í vatn. T.d. drifin eru þannig að hrein olía á þau kostar kannski 15000kr og 2 tíma vinnu undir bílnum en ef það er trassað og drifið fer ertu að horfa í þessa tölu tífaldast, tuttugufaldast leikandi. Maður er fljótur að komast að því hvað olía er ódýr ef maður tímir ekki að kaupa hana.

Kv Jón Garðar

User avatar

Höfundur þráðar
muggur
Innlegg: 363
Skráður: 12.okt 2011, 15:16
Fullt nafn: Guðmundur Þórðarson

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá muggur » 01.júl 2013, 11:05

Sælir aftur,
Já Jón ýjar að því að ýmislegt hafi kannski verið rangt mat hjá mér. Það er eflaust rétt en ég held að menn finni alltaf réttlætingu á sinni sérvisku sem í mínu tilfelli var það Pajero-blæti á háu stigi. Ég get auðveldlega sett dæmið þannig upp að ég hafi keypt bílinn á 1045 þús (innifel fyrstu viðgerðina í kaupverði) og síðan hafi ég verið óheppinn að þurfa að eyða um 300 þús í headið. Allt hitt sem upp var talið er bara rekstrarkostnaður. Tilgangurinn með pistlinum var hinsvegar að sýna þeim sem eru í svipuðum sporum og ég að það er ekki bara spurning um að finna pening til að kaupa jeppann, það kostar líka að reka þessi tæki.

Það hjálpar náttúrulega rosalega að geta gert hluti sjálfur en ef maður er ekki menntaður bifvélavirki/vélstjóri etc þá er enþá mikilvægara að þekkja sín takmörk. Var t.d. búinn að finna step-by-step leiðbeiningar til að skipta um headpakkningar í eins vél og er í mínum bíl en það er ekkert grín ef maður klúðrar svona viðgerð. Þannig að það er gott að finna sér sanngjarnan bifvélavirkja sem maður treystir, því það er dáldið mikið um kúreka í þessu fagi (vona ég móðgi engan).

Til fróðleiks mynd af headpakkningunum, það var hvergi brunnið í gegn en vatnsgangarnir ljótir:
headGasket1_zpsaa66b81b.jpg
headGasket1_zpsaa66b81b.jpg (87.44 KiB) Viewed 9936 times


Einhver nefnir að maður eigi bara að kaupa sér mjög ódýran jeppa til að eiga þá meiri pening fyrir 'spari-pörtum'. Það er alveg gilt sjónarmið en mig langaði í nokkuð heillegan og fallegan bíl og ég ætla mér að vera 'gamli kallinn með hattinn á pajeronum'. Kosturinn við þennan bíl er að þegar börnin fá bílpróf eftir rúm 10 ár þá er hann ábyggilega mjög hallærislegur fyrir utan að þau munu ekki hafa efni á að keyra hann úti í sjoppu, hvað þá meira :-)
Síðast breytt af muggur þann 09.nóv 2023, 11:07, breytt 1 sinni samtals.
----------------------------------------------
Guðm. Þ.
Pajero 1998 V6 3000 24V

User avatar

ellisnorra
Póststjóri
Innlegg: 2809
Skráður: 06.feb 2010, 10:43
Fullt nafn: Elmar Snorrason (Elli)
Bíltegund: Patrol
Staðsetning: Travitsenfirkopfendorf

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá ellisnorra » 01.júl 2013, 11:14

Flottur þráður, þú ert góður penni Guðmundur!

Miðað við þessar upphæðir þá sé ég enn og aftur hvað það er gott að geta gert hlutina sjálfur :)
Luxinn minn væri sjálfsagt dýrari en nýr landcruiser ef ég hefði borgað verstæðisverð fyrir hvern tíma sem maður hefur dundað sjálfur í honum :)
http://www.jeppafelgur.is/

User avatar

StefánDal
Innlegg: 1233
Skráður: 23.mar 2010, 21:21
Fullt nafn: Stefán Hrannar Dal Björnsson
Bíltegund: Toyota Hilux

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá StefánDal » 01.júl 2013, 12:31

Frábær samantekt og skemmtileg lesning.

Mikið rosalega er ég feginn að geta gert sjálfur við mína bíla. Ég hef bölvað því í sand og ösku að punga út 30.000 kalli fyrir kúplingssett og þurfa svo að eyða frídegi í bílaviðgerðir en maður ætti kannski bara að halda kjafti og vera ánægður með sínar aðstæður.
Gallinn er sá að mér finnst þetta svo hrikalega leiðinlegt ;) Ég starfa við hjúkrun en vann einn vetur á bílaverkstæði fyrir tvítugt ásamt því að hafa verið með mikla bíladellu sem unglingur.

User avatar

Sira
Innlegg: 58
Skráður: 12.nóv 2011, 11:55
Fullt nafn: Sigurjón Leifsson
Bíltegund: MMC Pajero
Staðsetning: Skagafjörður

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá Sira » 03.júl 2013, 14:09

Mín saga er að haustið 2011 keypti eg Izuzu Trooper 2000 árg 3,0l tdi á kr. 850.000
eg var búinn að skoða jeppa á verðbilinu 1milljon.
var heitur fyrir Pajero 1998 sem var þá á 1300 þús 2,8 tdi 33"
og einnig 2001 pajero (nýrra útlit ) V6 bensín sem var á 1400 þús

fékk svo að láni Trooper 1 dag til prufu og ákvað að skella mér á hann eg hugsaði að eg get eytt allavega 100-250 þús í þennan bíl. mismunur á verði bílsins og það sem eg ætlaði að eyða í hann.
er búinn að keyra hann um 30. þús km síðan Okt 2011
kostnaður hefur verið eftirfarandi sl. 21 mánuði

Viðgerðir og varahlutir 151.547 þús
dekk . ( vetrar) 117.000
Olíur og hefðbundið viðhald 60.000
skoðun og gjöld 70.000
Eldsneyti: ( sirka) 650.000

Samtals 1048.547
MMC Pajero 3,5L GDI 2005
Skoda Superb TDI 4x4 2013


Izan
Innlegg: 616
Skráður: 29.mar 2010, 10:56
Fullt nafn: Jón Garðar Helgason

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá Izan » 03.júl 2013, 22:36

Sælir

Þetta er sama sagan hjá flestum held ég enda eru þessi tæki ekki misgóð heldur misónýt. Menn verða að taka með í reikninginn að bíll sem er 2000 módel er þrettán ára gamall og í langflestum tilfellum búið að nota.

Það er ekki sanngjarnt að taka eldsneytiskostnað með í dæmið því að það er leikandi hægt að sleppa því, ég t.d. er ekki búinn að brenna nema hálfum desilítri af hráolíu síðan síðasta haust (og það var alveg óvart á sláttuvélina).

Þetta sport er dýrt, það er óumdeilt, en menn geta að sjálfsögðu komist misvel frá því bæði verið misóheppnir og tekist mismunandi á við verkefnin. Ég er búinn að prófa að reka snjósleða og eftir þá lífreynslu finnst mér bara 92 árgerð Patrol á 44" dekkjum alger draumur. Ástæðan er ekki síst sú að ég sat einn að sleðanum s.s. gat ekki boðið neinum í fjölskyldunni að taka þátt með mér en Pattinn nýtist okkur öllum t.d. í sumarferðir og allskonar bras. Það er t.d. ennþá (eða réttara sagt fyrst núna) hlegið að því þegar við sátum öll föst úti í skógi með affelgað að aftan upp við tré um miðnættið á þorláksmessu þegar við sóttum jólatré einhvert árið.

Já þetta er dýrt en það gefur manni helling til baka. Ég hef t.d. ekki haft jeppann á skrá þennan veturinn og það sem af er sumri og þegar maður prófar þá hörmung að komast ekki nema malbikaða vegi svo vel sé eftir að hafa farið þangað sem mann langar skilur maður hvað maður er að borga fyrir.

En hvað er þetta dýrt, ég notaði Pattann í vinnuna nokkur ár á 38" dekkjum og hélt utanum allan kostnað. Keypti svo Súbarú 98 til að minnka kostnaðinn en hvað, hann var nánast sá sami fyrsta árið. Árið áður keypti ég engin dekk undir Pattann, hann bilaði lítið sem ekkert og gekk einhvernvegin af gömlum vana en Subbinn var nýkeyptur og þá sér maður allt að og gerir við. Nýjir demparar, hjólalegur, bremsur, olíur, kælivatn, öxulhosur o.s.frv. Árin sem komu á eftir voru Súbarú í vil og spurningin er hvort þessi bílakaup ykkar verði ekki eitthvað í þessum dúr, dýr í upphafi en svo eftir 2-3 ár fattiði að það hefur nánast ekkert óvænt komið upp. Það má allavega vona það besta.

Kv Jón Garðar

User avatar

Höfundur þráðar
muggur
Innlegg: 363
Skráður: 12.okt 2011, 15:16
Fullt nafn: Guðmundur Þórðarson

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá muggur » 04.júl 2013, 11:30

4 júlí 2013: Smá update

Ástandsskoðun 2013:
Í síðastliðnar tvær skoðanir hefur verið tuðað yfir 'sambandsleysi í kerrutengli', skrapp í BYKO og keypti nýjan á 760 krónur og tengdi. Keyrði svo í skoðun og fékk gulan miða (stóðst skoðun) með tvær athugasemdir:
- Öxulhosa ytri h/m
- Sambandsleysi í kerrutengli
Arghhhh þannig að sambandsleysið var ekki í tenglinum.

photo1_zps6608eb15.jpg
photo1_zps6608eb15.jpg (73.58 KiB) Viewed 9942 times


Allavega þá fór ég og keypti öxulhosuna í Stillingu og ákvað að kippa þeirri innri með í leiðinni. Kostnaður við það var ríflega 7000 kr. Svo lét ég 'tæknimentaðan mann' gera við þetta fyrir mig. Sá nú svoldið eftir því þar sem að ég rakst á Ástrala á Youtube sem var eimitt að skipta um svona hosu á frambyggða pajeronum sínum (L300). En mig vantaði bílinn í hvelli. Það var eins gott að ég keypti innri hosuna líka því hún var víst orðin ansi léleg. Það má því segja að ég hafi fengið tvær viðgerðir í einni, semsagt frítt (Er orðinn nokkuð góður í sjálfsblekkingu).

[youtube]http://youtu.be/h_2HMAqsulU[/youtube]

Fyrsta ferð sumarsins
Ákvað að draga bróðir minn með í smá bíltúr og var ferðinni heitið á veginn sunnan við Langjökul (Skjaldbreiðsvegur). Er við komum uppfyrir Meyjarsæti var stöðvað og hleypt úr af 'alvöru jeppamanna sið' úr 34psi niður í 22psi. Þetta var mín fyrsta úrhleyping úr Pajeronum og þvílíkur munur. Reyndar hjálpaði líka mikið að setja demparana á 'S' stillingu, brilljant takki hjá Hr. Mitsubishi (Eitthvað sem vantar pottþétt í Musso og Trooper :-). Gekk ferðin mjög vel og er við komum niður á Kjalveg var þessi fína Viair 450p loftdæla sem ég keypti notaða hér á spjallinu dregin fram og pumpað í aftur.

photo5_zpsb17f85be.jpg
photo5_zpsb17f85be.jpg (117.41 KiB) Viewed 9942 times


Það tók nú ekki nema um 10 mínútur með öllu að koma dekkjunum aftur upp í 32psi. Þannig að nú fannst mér ég vera alvöru jeppakall. Búinn að hleypa úr og pumpa aftur í á mínum fjallabíl. Svo þrufti reyndar endilega þetta flykki að leggja við hliðina á mér við Gullfoss og mér leið aftur eins og ég væri á Jepplingi...

photo1_zps8d5e14b6.jpg
photo1_zps8d5e14b6.jpg (91.54 KiB) Viewed 9942 times


Vorum svo að spá í að fara inn í Laugar og svo Landmannaleið en Kóarinn strækaði á það og þess í stað var keyrt að Sultartanga og svo niður meðfram Heklu til baka niður að Hellu og í bæinn.

Keyrðum um 370 km samkvæmt mæli og fór rúmlega hálfur tankur. Mér reiknast því til að:

Tankurinn er uppgefinn 90 lítrar, en ég hef aldrei tekið meira en 70 lítra á hann þannig að ég notaði um 35 lítra af bensíni.

Við keyrðum tæpa 400 km og svo þarf að takta tillit til þess að dekkin eru 10% stærri en uppgefið og mælirinn miðast við. Þannig að í raun voru þetta 440 km.

Eyðslan er því um um 7.9 lítrar á hundraðið. Þannig að í þessari ferð þar sem keyrt var c.a. helminginn af leiðinni í fjórhjóladrifi á malarvegum og fara ekki með nema rétt rúma 7 lítra á hundraðið kalla ég gott fyrir jeppa sem er vel yfir 2 tonn af þyngd ;-)
Síðast breytt af muggur þann 09.nóv 2023, 11:15, breytt 1 sinni samtals.
----------------------------------------------
Guðm. Þ.
Pajero 1998 V6 3000 24V


vidart
Innlegg: 138
Skráður: 07.sep 2011, 18:44
Fullt nafn: Viðar Þorgeirsson
Bíltegund: Toyota LC 90
Staðsetning: Reykjavík

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá vidart » 04.júl 2013, 14:21

Alveg ótengt þessu þá máttu fara miklu neðar með loftþrýstinginn. Allavega niðrí 15 psi.

User avatar

ellisnorra
Póststjóri
Innlegg: 2809
Skráður: 06.feb 2010, 10:43
Fullt nafn: Elmar Snorrason (Elli)
Bíltegund: Patrol
Staðsetning: Travitsenfirkopfendorf

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá ellisnorra » 04.júl 2013, 14:35

muggur wrote: (Er orðinn nokkuð góður í sjálfsblekkingu).


Já ég held það, allavega miðað við bensínútreikingana hjá þér. Ég ætla ekki beint að rengja þig, en ég mun seint trúa þessum tölum hjá þér :)
Held að þú ættir líka að fá nákvæmari mælingu á eyddum lítrum með því að fylla tankinn aftur og sjá hvað þú eyddir raunverulega miklu. Mín reynsla hefur verið sú á flestum bílum sem ég hef átt að það eru fleiri lítrar ofanvið miðju heldur en neðanvið á bensínmælinum.

Ekki misskilja, ég er allsekki að "dissa", heldur bara að gagnrýna í jákvæðri merkingu þess orðs :)
http://www.jeppafelgur.is/

User avatar

Tómas Þröstur
Innlegg: 330
Skráður: 19.mar 2010, 10:03
Fullt nafn: Tómas Þröstur Rögnvaldsson

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá Tómas Þröstur » 04.júl 2013, 14:46

[Það tók nú ekki nema um 10 mínútur með öllu að koma dekkjunum aftur upp í 32psi. Þannig að nú fannst mér ég vera alvöru jeppakall. Búinn að hleypa úr og pumpa aftur í á mínum fjallabíl. Svo þrufti reyndar endilega þetta flykki að leggja við hliðina á mér við Gullfoss og mér leið aftur eins og ég væri á Jepplingi...


Gott fjallaráð við þessu er að ganga upp að bílstjóra stærri bílsins og segja honum að færa bílinn sinn !

Svo annað gott fjallaráð. Ef einhver kemur á nýjan stað sem hann hefur ekki komið á áður þá stíga úr bílnum, líta vel í kringum sig og segja svo. Já svona lítur þetta út - þetta grunaði mig alltaf !

User avatar

Höfundur þráðar
muggur
Innlegg: 363
Skráður: 12.okt 2011, 15:16
Fullt nafn: Guðmundur Þórðarson

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá muggur » 04.júl 2013, 15:09

elliofur wrote:Ekki misskilja, ég er allsekki að "dissa", heldur bara að gagnrýna í jákvæðri merkingu þess orðs :)



Alls ekki tekið þannig. Þessir útreikningar voru nú líka settir inn í gríni. Gæti með svona aðferðum auðveldlega sannað að eyðlsa per rúmtakslíter á vél hjá mér er miklu minni en í Yaris... en er náttúrulega algjört bull. Hann var ábyggilega einhverstaðar milli 15 og 17 lítrum, hjálpaði svo ekki til að ég gleymdi að taka hann úr sídrifinu (4H) og fattaði það ekki fyrr en ég var kominn upp á Kamba-brún.

Tómas Þröstur wrote:Gott fjallaráð við þessu er að ganga upp að bílstjóra stærri bílsins og segja honum að færa bílinn sinn !

Svo annað gott fjallaráð. Ef einhver kemur á nýjan stað sem hann hefur ekki komið á áður þá stíga úr bílnum, líta vel í kringum sig og segja svo. Já svona lítur þetta út - þetta grunaði mig alltaf !


Þetta eru góð heilræði Tómas.

kv. Muggur
----------------------------------------------
Guðm. Þ.
Pajero 1998 V6 3000 24V


ihþ
Innlegg: 98
Skráður: 19.jan 2012, 13:17
Fullt nafn: Ingólfur Þorleifsson
Bíltegund: Mitsubishi Montero

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá ihþ » 08.júl 2013, 17:25

Góðan dag.

Undir teppinu út við sílsinn v/megin að aftan eru vírar sem gætu haft áhrif á kerrutengilinn hjá þér. Átti svona Pajero (að vísu 2800 díesel) þar sem vandamálið var sambandsleysi í þessum vírum.

User avatar

Höfundur þráðar
muggur
Innlegg: 363
Skráður: 12.okt 2011, 15:16
Fullt nafn: Guðmundur Þórðarson

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá muggur » 21.aug 2013, 13:39

Update 21 ágúst
Menn voru eitthvað að efast um þessa útreikninga hjá mér um daginn....

muggur wrote:4 júlí 2013: Smá update

Keyrðum um 370 km samkvæmt mæli og fór rúmlega hálfur tankur. Mér reiknast því til að:

Tankurinn er uppgefinn 90 lítrar, en ég hef aldrei tekið meira en 70 lítra á hann þannig að ég notaði um 35 lítra af bensíni.

Við keyrðum tæpa 400 km og svo þarf að takta tillit til þess að dekkin eru 10% stærri en uppgefið og mælirinn miðast við. Þannig að í raun voru þetta 440 km.

Eyðslan er því um um 7.9 lítrar á hundraðið. Þannig að í þessari ferð þar sem keyrt var c.a. helminginn af leiðinni í fjórhjóladrifi á malarvegum og fara ekki með nema rétt rúma 7 lítra á hundraðið kalla ég gott fyrir jeppa sem er vel yfir 2 tonn af þyngd ;-)


Þetta var nú meira sett fram í gríni. Miðað við það sem fór á hann eftir þessa ferð þá reiknast mér til að hann hafi eytt um 14.6 lítrum á hundraðið þarna. Núna í sumarferðunum þá fylgdist ég vel með kílómetramælinum og skráði niður eldsneyti sem ég keypti. Auðvitað er kílómetramælirinn í bílnum ekki alveg nákvæmur. Sem dæmi má nefna að milli Reykjavíkur og Bíldudals eru 385 km samkvæmt vegagerðinni en ég mældi það sem 370 (á heima í vesturbænum í reykjavík, þannig að ég ætti að fá það sama út og vegagerðin). Þannig skráir mælirinn í bílnum hjá mér 4% of lítið. Engu að síður miðast mælingarnar við að mælirinn sé réttur en ég set nú samt skekkjumælinguna innan sviga. Í öllum tilfellum var bíllinn fulllestaður með stórt tengdamömmubox á toppnum

- Fjallabaksleið nyrðri og keyrt í Skaftafell: Keyrt var á 20 pundum á malarvegum og í 4hjóla drifinu. Eyðsla 15.4 litŕar (14.8l)
- Skaftafell - Klaustur (í sund) - Skaftafell - Reykjavík. Eyðsla 13.3 lítrar (12.8l)
- Reykjavík - Bíldudalur, Selárdalur. Eyðsla 14.9 lítrar (14.4)
- Þvælst um sunnanverða vestfirði frá Bíldudal. Dynjandi, rauðisandur og ferðir á Patró og Tálknafjörð. Druslan var stigin vel upp hálsana. Eyðsla 16.6 lítrar (16,0l)
- Bíldudalur - Reykjavík Eyðsla 14.3 lítrar (13.8l)

Þannig að eyðslan í langkeyrslu er um 14 lítra, en hægt að ná henni upp nokkuð auðveldlega. Sýnist þetta vera minnkun um ca. líter per 100 km síðan í fyrra. Þessa minnkun skrifa ég þá á ný kerti, þræði og headpakningu.

Auðvitað er þetta meira en hjá grútarbrennurunum (musso, terrano) en persónulega finnst mér þetta ekki svo svakalegt m.v. nærri 16 ára gamlan bensínjálk.
----------------------------------------------
Guðm. Þ.
Pajero 1998 V6 3000 24V

User avatar

StefánDal
Innlegg: 1233
Skráður: 23.mar 2010, 21:21
Fullt nafn: Stefán Hrannar Dal Björnsson
Bíltegund: Toyota Hilux

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá StefánDal » 21.aug 2013, 15:28

Isuzu Trooper 1994 3.1TDI keyrður 290.000.
Kaupverð 0kr. (Fékk hann í skiftum fyrir endurohjól sem ég fékk í skiftum fyrir sendiferðabíl á breskum númerum sem ég fékk gefins.)

Er búinn að þrífa hann að innan og setja hann á 33" dekk sem ég fékk gefins. Annars hef ég bara sett á hann olíu og keyrt.
Minnsta mælda eyðsla 9.7 í sparakstri og mest 13.5 með búslóð í drætti.

Ætli ég þurfi ekki að eyða í hann 100.000 kalli fyrir veturinn til að hafa hann alveg góðan.

Þetta er alveg slarkfær sjö manna jeppi og ég er alls ekki að bera hann saman við lítið keyrðan Pajero 2000 módel eða Land Cruiser. Er bara að sýna fram á að þetta þarf ekki endilega að kosta svona mikinn pening :)

User avatar

snöfli
Innlegg: 287
Skráður: 03.sep 2010, 19:21
Fullt nafn: Lárus Elíasson
Bíltegund: Patrol Y61

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá snöfli » 21.aug 2013, 21:00

Gamlir jeppar er eins og taka þátt í happdrætti þar sem "vinningarnir" hafa allir neikvæða upphæð.

Stundum sleppur maður og stundum ekki. Vafalust eru þessir bílar eitthvað misjafnir en markaðurinn er líka mestmegnis lógískur með sína verðlagningu. Hef átt þrjá Mússóa og tvær Pæjur í þessum verðflokki (og jú Scout sem ég vil helst ekki rifja upp).

Pæjan fer vel með mann og ég var heppin, annar bíllinn án bilana svona mestmegnis (2.8D) en sveifarásinn snérist í sundur hjá næsta eignanda á hinum (2.5D). Báðir frekar kraftlausir en urðu nokkurnveginn nothæfir uppkrúfaðir með sverara pústi.

Mússóranir voru með slatta af pillerlísbilunum. Ekkert sem kostaði pening, en meira svona pirring ef frá eru taldar heddpakkningar á tveimur bílanna sem kostar heldur ekki mok af peningum ef maður gerir við það sjálfur. Mússóinn fer líka vel með mann og er með skemmtilegar hreyfingar. Það á ekki að bera saman (eða kaupa) Mússóa án túrbínu eða þessa 4ra cylindra með túrbínu. Báðir eru vita máttlausir. Ekki mikill munur ef einhver á 2.9D Mússó eða 2.8D/2.5D Pæju hvað kraft snertir nema svona eins og í gamla daga þegar rifist var um hvað 50cc blaðran væri kraftmest.

Hef átt yngri Toyotur og hef af þeim ágæta reynslu en hef aldrei geta sætt mig við verðið á útslitnum Toyotum. Á sínum tíma þegar ég keypti fyrstu Pæjuna bar ég hana saman við dýrari Toyotur sem aldrei bila, en undntekningarlaust var langur listi (á 90 bílunum) yfir alt sem var nýtt eða endurnýjað í bílnum. (ég ráðlegg öllum að lesa nokkra auglysingar á bílasölur.is, venjulega er bara skipt um það sem er útslitið eða bilað óháð tegund:)
l.

User avatar

jeepson
Innlegg: 3176
Skráður: 31.jan 2010, 16:02
Fullt nafn: Gísli J Gíslason
Bíltegund: Nissan patrol
Staðsetning: Þarna fyrir austan.

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá jeepson » 22.aug 2013, 08:29

Flottur pistill hjá þér muggur. Það er vissulega ekki gefins að eiga bíl nú til dags. Sumir eru heppnir og ekkert bilar hjá þeim á meðan að aðrir eru kanski með sömu tegundina altaf í hödnunum. Ég hef verið ótrúlega heppinn með þessa patrola mína. en það hefur fylgt þeim einhver viðhalds kostanur eins og með alla gamla bíla. En við meigum ekki gleyma því að nýlegir bílar bila líka og oft á tíðum kostar jafnvel meira að laga þá heldur en gömlu dósirnar okkar.
Kv. Gísli

Nissan Patrol 1992 6.5 detroit diesel 46" Trölli
Isuzu Trooper 2003 3.1 TDI[b]37"/b] vinnu og veiði bíllinn
Audi Q7 3.0 TDI frúar vagninn


demi
Innlegg: 46
Skráður: 12.okt 2011, 11:18
Fullt nafn: Hermann Jóhannesson

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá demi » 28.maí 2014, 00:18

Frábær þráður, ég vil endilega fá meiri upplýsingar úr pajero bókhaldi!

Gaman og fróðlegt að sjá menn bera saman bækur sínar í kostnaði á rekstri á fjallabílum

User avatar

Höfundur þráðar
muggur
Innlegg: 363
Skráður: 12.okt 2011, 15:16
Fullt nafn: Guðmundur Þórðarson

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá muggur » 28.maí 2014, 10:36

demi wrote:Frábær þráður, ég vil endilega fá meiri upplýsingar úr pajero bókhaldi!

Gaman og fróðlegt að sjá menn bera saman bækur sínar í kostnaði á rekstri á fjallabílum



Takk fyrir það. Jamm Pajeroinn heldur áfram að vera virkur í Meninga :-) Frá því í haust hefur hann þurft ást og viðhald þrisvar sinnum.

Í Október fór ég að taka eftir því að hann var þyngri af stað og t.d. bakkaði ekki sjálfur ef maður setti skiptinguna í 'R'. Þá var hann einnig farinn að rása meira en venjulega og þá vanalega bara í eina áttina. Var ég nú farinn að klóra mér í skallanum yfir þessu og kom svo við felgunar eftir dáldin bíltúr. Reyndist þá hjólið hægramegin að framan vera heitt. Nú reif dekkið af og tékkaði á dælunni og reyndist annar stimpillinn fastur.

Ræddi hvað skildi til bragðs taka við bifvélavirkjann og komu útreikningar okkar út að svipað dýrt myndi vera að fá nýja dælu og að kaupa sett í hana þegar tekið væri tillit til vinnunar við að hreinsa upp dæluna. Pantaði því nýja dælu hjá AB-varahlutum og fékk að skipta um hana sjálfur hjá bifvélavirkjanum og þáði góð ráð hans á meðan á þessum tilfæringum stóð. Kom í ljós að bremsuklossanir á þessari hjóli voru orðnir sprungnir af hitanum svo seinna skipti ég um þá. Kostnaður við þetta var því
Bremsudæla 38 000
Klossar 6 000
Heild 46 000

photo1_zps18529084.jpg
photo1_zps18529084.jpg (129.28 KiB) Viewed 9945 times



Nú í Janúar var ég að keyra fram hjá Hörpunni og heyrast þá ekki þessi líka svaka læti, stýrið verður blýþungt og öll ljós í mælaborðinu lýsa sem á annaðborð eru með virkar perur. Næ að koma bílnum upp á umferðareyju og sé að viftureimin er laus. Ætla að fara að þræða hana upp á en þá kemur í ljós að neðsta reimahjólið (sveifarás-hjólið) er laust. Hringi nú í CA-stuðningsfulltrúann (Car Anonymous [aka bifvélavirkjann]) og hann tjáir mér að þetta sé gúmmípúði í hjólinu sem hafi farið og sé nú tiltölulega lítið mál að laga. Pantaði hjólið af ebay, svo kom í ljós að Pajeroinn hafði í látunum brotið pinnann sem tengir saman sveifaráshjólið og tímareimahjólið og þurfti því að panta nýtt tímareimahjól frá Heklu.
Varahlutir 59 000
Vinna og dráttur 47 000
Samtals 106 000

Má segja að þarna hafi ákveðnum lágpunkti verið náð og hugsaði ég það alvarlega að selja helvítið nú eða bara að fá útrás á honum með stórri sleggju.

Í mars var mér nú aðeins farið að renna reiðin og biturðin og kominn var tími á smurningu. Í göfuglyndi ákvað ég að láta skipta um bremsuvökva á honum. Smurstöðin benti mér á að annar afturdemparinn væri farinn að leka hjá mér og hin ýmsu gúmmí farin að springa (ballansstangar endar að aftan og baulugúmmínn á aftur stífunum. Skipti /ví um afturdemparana. Langadi i orginal en thar sem ad 100000 kall hafdi farid i hann adur tha keypti eg bara i stillingu. Skipti um thetta sjalfur.
Kostnaður 23 353

Ef að sveifaráshjólið hefði ekki farið þarna fyrr um veturinn hefði ég líklega splæst í orginal stillanlega dempara. En vegna þess að betri helmingurinn vaktar Meninga varð að leita ódýrari lausna. Keypti því KYB dempara í Stillingu og setti sjálfur undir,
Dempara par 19 590
Boltar 500
Samtals 20 090

Eins og sjá má voru þeir orðnir ansi slappir
Photo22-03-14133617_zpsdba4e75a.jpg
Photo22-03-14133617_zpsdba4e75a.jpg (151.96 KiB) Viewed 9945 times


Eins og er er virkar bíllinn vel en ég þarf að fara fljótlega í balansstangarenda og líklega líka í fóðringarnar á afturstífunum. Þá er afturhlerinn orðinn leiðinlegur og þarf ég að finna einhvern sem getur skipt um þolinmóð í hjörunum. Má einnig fara að huga að endurnýjun bremsuröra og jafnvel að taka upp hinar hjóldælunar. Svo þegar ég vinn í Víkingalottóinu að setja í hann MMC DID vél :-)

Bíllinn hefur verið í lítilli notkun í vetur og efast ég um að ég hafi tankað hann meira en svona 10 sinnum síðan í September. Þannig að reksturinn hefur fyrst og fremst verið viðhald, allt er þetta 'eðlilegt slit' en þetta getur verið andskoti þreytandi.
Síðast breytt af muggur þann 09.nóv 2023, 11:28, breytt 2 sinnum samtals.
----------------------------------------------
Guðm. Þ.
Pajero 1998 V6 3000 24V


cruser 90
Innlegg: 122
Skráður: 25.júl 2010, 23:59
Fullt nafn: Jóhann V Helgason

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá cruser 90 » 28.maí 2014, 15:23

Þú hefðir átt að kaupa þér land cruiser ;D
Jóhann V Helgason S:8408083

User avatar

jeepcj7
Innlegg: 1697
Skráður: 01.feb 2010, 08:46
Fullt nafn: Hrólfur Árni Borgarsson
Bíltegund: F-250 Powerstroke
Staðsetning: Akranes

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá jeepcj7 » 28.maí 2014, 15:41

Þú hefðir átt að kaupa þér land cruiser ;D


Þá væri þetta líklega svipað nema upphæðirnar hærri. ;O)
Heilagur Henry rúlar öllu.

User avatar

Höfundur þráðar
muggur
Innlegg: 363
Skráður: 12.okt 2011, 15:16
Fullt nafn: Guðmundur Þórðarson

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá muggur » 28.maí 2014, 20:35

Land cruiser hvað. Í svartnætti mínu hef ég talað við ýmsa þjáningarbræður. Skiptir ekki máli pajero, patrol, musso eða cruiser. Þegar farið er að síga á tvítugsaldurinn þarf þetta allt viðhald. Allavega lookar pæjan alltaf vel ;-)
----------------------------------------------
Guðm. Þ.
Pajero 1998 V6 3000 24V


einsik
Innlegg: 116
Skráður: 24.jún 2011, 19:15
Fullt nafn: Einar S. Kristjánsson

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá einsik » 28.maí 2014, 21:15

Skemmtilegur og sannur þráður.
Mér finnst að þú eigir að fá rithöfundalaun og listamannalaun fyrir þessa frásögn. ;)
Einar Kristjánsson
R 4048

User avatar

Stebbi
Innlegg: 2098
Skráður: 31.jan 2010, 22:59
Fullt nafn: Stefán Stefánsson
Bíltegund: Eitthvað blátt
Staðsetning: Hafnarfjörður

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá Stebbi » 30.maí 2014, 17:52

Þetta trissumál er vel þekkt á þessum vélum og skiptir víst mjög miklu máli að maður noti yngstu útgáfu af bolta í þetta og lími allt í drep.
Hilux DC 2.4 dísel úrbræddur
Jeep Grand Cherokee 4.7 Seldur
MMC Pajero 2.5TDI 38" Seldur
Ford Econoline 44"

User avatar

Sævar Örn
Innlegg: 1919
Skráður: 31.jan 2010, 19:27
Fullt nafn: Sævar Örn
Bíltegund: Hilux
Staðsetning: Reykjavik
Hafa samband:

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá Sævar Örn » 30.maí 2014, 18:03

Gúmípúðinn á trissunni var heill, en það er algengara á disel vélinni að hann rifni, í þessum hafði hjólið losnað, brotið kílinn úr tímareimahjólinu og nuddað sár í bæði trissuna og tímareimahjólið og þar með eyðilagt hvort tveggja


boltinn var enn til staðar og gengjur í lagi svo dugði að skipta um hjólin og líma og herða, þó leiðinda tvíverknaður
Samband Íslenskra Suzukijeppaeigenda
http://sukka.is

Skúra- og ferðablogg ásamt öðrum fróðleik
http://sabi.is

User avatar

íbbi
Innlegg: 1458
Skráður: 02.feb 2012, 04:02
Fullt nafn: ívar markússon

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá íbbi » 01.jún 2014, 01:23

ég keypti 2002 pajero síðastliðið haust.

ég tók hann upp í , á mjög sanngjörnu verði og gerði því ráð fyrir að margt mætti betur fara.

við fyrstu skoðun sá ég að

dekk, ónýt
bank í framhjólabúnaði
óhljóð einhverstaðar í drifbúnaði/hjólabúnaði
gékk illa lausagang
átti til að drepa á sér þegar maður sló af gjöfini.
eyddi óhóflega
lak smurolíu.
pústaði örlítið út

ég fékk tæplega halfslitinn 31" dekk á 20k,

ég villulas bílinn og fékk út að það þyrfti að kíkja á EGR ventilin
ég keypti ventlalokspakningar, kertahringi,kerti og notaðann EGR. verð e-h um 40k

þegar ég kíkti á EGR sá ég að einhver hafði reynt að ná honum úr og skemmt bolltana.

ég fékk soggrein úr öðrum bíl. ásamt throttle body, öllum skynjurum, hægagangsmótor.
skipti um sogreinina með öllu utanáliggjandi, kerti, pakningar. skipti í leiðini úm allar vacum leiðslur á innspýtinguni,

við þetta lagaðist bíllinn að öllu leyti nema lausagangurinn, eyðslan fín, vinnslan fín
við nánari skoðun sá ég að hvarfakúturinn er ónýtur og var bent á að spíssar gætu valdið þessum ógangi.
búinn að fá spíssa. og á efti að skella þeim í.

óhljóðin í dirf eða hjólabúnaði reyndist vera fastur stimpill í bremsudælu sem var gjörsamlega búinn með innri klossan að aftan, og stýrisendi, skipti um diska og klossa og gerði upp dælurnar, skipti um stýrisendann.

reif alla innrétinguna úr bílnum og breytti honum í limited (leður, viður, rafmagsnsæti og flr)

lét mála afturstuðara og skiti um afturljós.

held ég hafi eytt 100k í bílinn rúmlega, en ég keyrði hann svo í alllan vetur 8þús km, og hann hefur ekki svo mikið sem hikstað. og ég alveg hinn sáttasti.
1996 Dodge Ram. 38" á breitingaskeiðinu
2004 Ford F150 .
1991. Toyota 4Runner 44" einnig á breytingaskeiðinu.

User avatar

Höfundur þráðar
muggur
Innlegg: 363
Skráður: 12.okt 2011, 15:16
Fullt nafn: Guðmundur Þórðarson

Re: Undir milljón - Reynslusaga

Postfrá muggur » 22.jún 2014, 14:25

Jæja baslið heldur áfram í krónuflokknum!!!

Fór með Pajeroinn í skoðun og fékk tvær athugasemdir:
- Slag í neðri spindilkúlu h/m
- Vantar viðvörunarþríhyrning

Var dáldið hissa á því að spindilkúlan væri farin þar sem að það var skipt um hana þegar ég keypti bílinn fyrir þremur árum og bara búið að aka tæpa 20 þús km á henni. Reyndi að hafa samband við bifvélavirkjann en hann svaraði ekki. Hringdi í tvö verkstæði sem gáfu mér upp annarsvegar 1-2 tíma og hinsvegar 2-4 tíma og tíminn á 10 þús kall. Veit að þetta er alveg eðlilegur tími sem þeir eru að skjóta á þetta en maður er aðeins farinn að verða nískur þegar kemur að þessum bíl.

Lagðist yfir breska pajero-spjallið og viti menn, margir þræðir um hvernig maður skiptir um spindilkúlur. Það sem allir þar eru sammála um er að helsta vesenið sé að ná spindilkúlu pinnanum úr nafinu, en menn ættu ekki að vera feimnir við að beita sleggjunni. Flestir vildu meina að sleggjan væri það eina sem þyrfti, 'ball joint splitter' væri bara fyrir kellingar. Svo voru misjafnar skoðanir á því hvort það þyrfti að taka nafið af með því að losa efri spindilkúlu, stýrisenda og öxul. Ákvað að nú væri tækifærið til að kaupa 1/2 topplyklasettið og þar sem kjerlingaverkfærið kostaði bara 5000 kall í Sindra þá lét ég slag standa og eyddi 25 þús kalli í verkfæri.

Á fimmtudagskvöldið í grenjandi rigningu byrjaði ég og ætlaði að fara þá leiðina að losa ekki nafið af. Boltarnir fjórir sem halda kúlunni var auðvelt að losa sem og rónna á spindlinum. Setti klemmunna á kúluna og byrjaði að herða. Eftir nokkra snúninga heyrðist ægilegur smellur og ég nærri skeit á mig en þá var þetta bara akkúrat það sem átti að gerast, kúlan var laus eða það hélt ég. Kláraði að losa rærnar fjórar sem sneru niður og innri boltarnir tveir náðust auðveldlega úr. Boltarnir tveir sem eru nær nafinu hinsvegar komust ekki upp þar sem að öxullinn var fyrir og það var alveg sama hvernig ég beygði eða tjakkaði klafan til þeir vildu ekki upp. Losaði því öxullokið, tók splittið af öxlinum og ýtti honum aftur en það dugði ekki til. Við þetta brasaði ég í tvo tíma og m.a. sagaði annan boltann í sundur með járnsagarblaði þar sem að sögin komst ekki að. Nú var komið miðnætti og ég rassblautur, þreyttur, pirraður og uppgefinn og gafst því upp.


Þarna sést hausinn á boltadjöfullinum sem var að gera mér lífið leitt (Nafmegin).
F1432CE7-79BD-4788-A1C0-9E2752BC6B50_zps4tmjfyeo.jpg
F1432CE7-79BD-4788-A1C0-9E2752BC6B50_zps4tmjfyeo.jpg (74.51 KiB) Viewed 9952 times


Morgunin eftir ákvað ég að reyna bara að taka nafið af sem reyndist ekkert mál og 20 mínútum seinna var kúlan komin úr og nýja kúlan í. Lenti í smá brasi með ryðgað splitti í kastalarónni á stýrisenda en klukkutíma seinna stóð Pajeroinn í hjólin. Djöfull var ég ánægður með sjálfan mig þarna. Brunaði til snillana hjá Frumherja á Granda og fékk fulla skoðun.

Nyja kulan:
7BD7D4C0-AA89-44B1-91FE-28F3956B6EAD_zpsguo57v7z.jpg
7BD7D4C0-AA89-44B1-91FE-28F3956B6EAD_zpsguo57v7z.jpg (127.84 KiB) Viewed 9952 times



Kostnaður:
Spindilkúla (AB-varahlutir): 6000
Þríhyrningur (AB-varahlutir): 2800
Samtals: 8800

Verkfæri keypt í Sindra:
1/2 topplyklasett mm og tommu (þegar ég fæ mér F350)
Spindilkúluklemma
Splittatöng (sem ég notaði ekki)
25000.

Sjálfsblekkingin er að ég hafi í raun fengið verkfærin frí þar sem ég slapp við að fara á verkstæði.


Nú hjarirnar á afturhleranum voru orðnar ansi lélegar og spurði ég ykkur snillana hér á spjallinu um hvar maður gæti látið gera við þær.
[/url]
3C8EAD92-777B-4965-B440-01C47F9337C8_zps1psyn3ba.jpg
3C8EAD92-777B-4965-B440-01C47F9337C8_zps1psyn3ba.jpg (69.76 KiB) Viewed 9952 times




Eftir ykkar radum prófaði ég að tala við Partaland og hann benti mér á nágranna sinn sem er í næsta plássi vinstra megin við hann. Sá gaur á nánast lager af þessum hjörum. Allavega þá fór ég með hjarir sem að hann Halldór Másson (halldorm) hér á spjallinu var svo góður að gefa mér úr hræinu sínu og fékk þær lagaðar þarna fyrir 15 þús kall. Keypti málingu í Poulsen fyrir 8000 kall sem ég get svo notað áfram í að bletta. Mikill munur á því að loka hleranum og í sumar get ég þá sent krakkana út í bíl að sækja eitthvað en hingað til hef ég verið sá eini í fjölskyldunni sem hefur getað lokað hleranum.


Kvikindið ætti nú að vera klárt fyrir ævintýri sumarsins!!!
F1D4DC9E-04A7-47CE-B3C3-FA1E48B94770_zpsqn2u6wrr.jpg
F1D4DC9E-04A7-47CE-B3C3-FA1E48B94770_zpsqn2u6wrr.jpg (66.43 KiB) Viewed 9952 times
Síðast breytt af muggur þann 09.nóv 2023, 11:41, breytt 1 sinni samtals.
----------------------------------------------
Guðm. Þ.
Pajero 1998 V6 3000 24V


Til baka á “Jeppinn minn”

Tengdir notendur

Notendur á þessu spjallborði: Engir skráðir notendur og 1 gestur