Ákvað að stofna þennan þráð um jeppann minn þar sem reglulega koma spurningar hér á spjallið um jeppa undir milljón. Oftast eru menn að leita að bíl til sumarferða og eru að pæla í jeppum eins og Pajero, Patrol, Trooper eða álíka sem þá eru yfirleitt 10 ára eða eldri. Þetta er svona mín reynslusaga af þessu.
Bakgrunnur:
Er með fjögurra manna fjölskyldu og tvo meðalstóra hunda og vantaði því jeppa til að ferðast á á sumrin og var jeppinn hugsaður sem bíll númer tvö og ætti því ekki að vera í hinu daglega snatti. Jeppinn átti að vera óbreyttur eða mjög lítið breyttur (þ.e. Max 35 tommu dekk). Ég hef enga reynslu af viðgerðum og á engin verkfæri né hef ég aðstöðu en veit þó hvernig flest stykki í bíl líta út eftir að hafa unnið í varahlutaverslun á yngri árum. Treysti mér því svona í léttari viðgerðir eins og að skipta um bremsuklossa en lítið meira. Þannig að ekki sá ég fram á að kaupa eitthvert flak og gera upp eins og í mörgum þráðum hér á spjallinu sem ég les með mikilli aðdáun.
Valkostinir:
Budgetið var milljón og byrjaði ég leitina í byrjun júní 2011. Það er EKKI góður tími árs til að leita því að flestir virðast hugsa sem svo að þeir láti jeppagarminn sinn duga yfir sumarið til að skreppa í Þórsmörk/Kjöl eða hvað það nú er. Því var fátt um fína drætti á sölunum. Engu að síður þá prófaði ég mikið af þessum jeppum og niðurstaða mín var eftirfarandi:
Terrano: Of lítill fyrir mínar þarfir. Hafði einnig heyrt mikið af slæmum sögum um þá en þekki þó nokkra sem eru mjög ánægðir með þessa bíla.
Patrol: Flottir jeppar en þeir sem ég hafði efni á voru yfirleitt í slæmu ástandi, auk þess var ég búinn að lesa fullt af sögum um head-vandamál sem fældu mig frá þeim.
Trooper: Mér finnst hann ljótur, svo var umsögn Leo M ekki til að selja hann: 'Landbúnaðartæki' og 'Best að ræða um Trooper við fyrrverandi eigendur, þá fær maður sannleikann um þessa bíla'. Samt prófaði ég einn bensín trooper og hann var helvíti sprækur og skemmtilegur í keyrslu. Bíllinn var á bílasölu Guðfinns og ef þeir hefðu ekki verið svona mikið að reka á eftir mér þá hefði ég líklega keypt hann.
Land cruiser: Þeir fundust ekki undir milljón enda úr gulli að mati eigenda sinna.
Musso: Prófaði enga, hafði mikla fordóma eftir að hafa einu sinni tekið í svoleiðis og þurft að fara í öðrum gír upp kambana. En með túrbínu og svoleiðis dóti skilst mér að þetta séu eðalvagnar. En virka heldur litlir fyrir mig.
Amerískir: Lagði ekki í Explorer/Cheerokee útaf bensíneyðslu. Langar sjúklega í Econaline/Excursion/Suburban en það er bara of stórt dæmi fyrir mig.
Pajero: Það var í raun jeppinn sem mig langaði í. Las mikið um þá og komst fljótt af grindarvandamálinu í þeim en fyrir utan það virtust þeir almennt álitnir góðir bílar. Skoðaði og prófaði marga. Stóð mig fljótlega að því að vilja bara facelift (1997-2000 árg) með 33-35 tommu kanta. Vildi fá mér 2.8 disel bílinn en flestir vrou þeir annaðhvort dýrir eða að grindin var farin í þeim. Sama gilti líka um 2.5 en hann fannst mér ansi traktoralegur.
Kaupin:
Þegar hér var komið sögu (ágúst) var ég orðinn ansi þurfandi og endurhugsaði málið dáldið og tókst að reikna mig niður á að m.v. litla keyrslu (ca 6 þús km/ár) væri munurinn milli disel og bensín kannski ekki svo mikill. Bensín bílarnir væru vanalega minna keyrðir og því heilllegri. Svo rak loks á fjörur mínar í lok ágúst bensín pajero, keyrður aðeins 135 þús km (4 eigendur). Dreif hann í Artic Trucks í ástandsskoðun og listinn sem ég fékk var eftirfarandi:
1. Þurrkurofi bilaður
2. Dagljósabúnaður bilaður, ljós að aftan slökkna ekki nema alveg sé svissað af
3. Þurrkublöð ónýt
4. Olíuleki aftan á báðum headum
5. Ballansstangarendi aftan h/m laus
6. Slag í efri klafa h/m
7. Komið slag í báðar neðri spindilkúlur
8. Vantar gler á bæði númersljós
9. Vantar ljós í hallamæli
10. Vantar smurbók
11. Vantar parkljós í kerrutengil, h/m
12. Kælivökvi: gamall og þarf að skipta um.
13. Vantar parkljós að framan og aðalljós h/m.
14. Gat í toppi eftir loftnet
Fékk þann dóm að grindin væri í mjög góðu lagi og ekkert ryð í bodyi fyrir utan smá yfirborðs-ryðbólur. Þeir reyndu að fá hann til að blása í flösku en það gekk ekki svo þeir töldu að headpakkningin væri í lagi þrátt fyrir ljótan kælivökva og olíulekinn væri tilkomin vegna ventlalokspakkninga. Eigandinn kom með smurbók sem var nokkuð góð. Ég ákvað að slá til og keypti bílinn á 850 þús. Rúllaði honum svo á verkstæði og lét gera við hjólabúnaðinn (spindilkúlur, spyrnu, ballanstangarenda) auk þess að skipta um vatnskassa (sem þeir í Bílson ráðlögðu mér). Varahlutakostnaður var 83 þús og viðgerðarkostnaður með smurningu var 112 þús, semsagt í heildina 195 þúsund og þá búinn að eyða 1045 þús í bílinn.

Reynslan
Ýmislegt smálegt lagaði ég sjálfur eins og að skipta um perunar, læsingu á varadekkshlíf, mixaði skinnur til að loka toppnum, spreyjaði rúðufals með silikon spreyi, skipti um þurrkurofa og lét hjólastilla hann. Þá þurfti að endurforrita aukalykilinn og kaupa nýjar fjarstýringar fyrir samlæsingarnar. Keypti númerljós á partasölu en það var ekki alveg í lagi svo ég keypti annað og gat sameinað þessi tvö í eitt sem virkaði. Kostnaður við þetta var líklega um 55 þús.
Nú var farið að nálgast vetur og dekkin sem hann var á voru fúin, misslitin og ansi eydd en þó lögleg. Keypti notuð nelgd nagladekk (33 tommu) undir hann og með umfelgun kostaði það 100 þús. Ákvað að láta hjólastilla hann aftur og var það 12 þús. Eftir veturinn tók ég naglana úr dekkjunum.
Mikið var ferðast um sumarið og stóð hann sig mjög vel. Reyndar eftir Þórsmerkurferð tók ég eftir því að forðabúrið var tómt og þurfti að bæta einnig á vatnskassann. Taldi ég að þetta væri bara vegna snöggkælingar í ánum (sem ég held að meiki ekki sense). Leið svo haustið án vandræða en á nýju ári (2013) fór aftur að hverfa vatn. Dreif ég hann í smurningu og lét skipta um vökva á drifum og millikassa, kostaði það mig um 30 þús.
Ákvað svo að láta laga olíulekann á headunum og keypti ný kerti, þræði og ventlalokspakkningar ásamt kertaþráðahringjum. Bað um að kíkt yrði hvort ekki væri allt í lagi með headið. Fékk þann dóm að í lagi væri með headið en fljótlega eftir viðgerðina fór vatnstapið að aukast en olía var samt fín. Skoðaði þetta svo sjálfur og komu engar loftbólur í forðabúrið, andaði léttara en mundi svo að það þyrfti að prófa einnig undir álagi. Festi bensíngjöfina með tissue-rúllu í 3000 snúningum og viti menn, loftbólur!!!
Minn góði bifvélavirki lagðist nú undir feld og leitaði af sér allan grun og fann engan loftleka í kerfinu og próf sýndi að það var púst í kælivökvanum. Þannig að ég fór og keypti afganginn af headpakkningarsettinu sem Kistufell (Brautarholti) hafði selt mér hinar pakkningarnar, bætti við vatnsdælu og tímareymasetti. Kostnaður við þetta var 310 þús með öllu (varahlutir, vinna og vökvar).
Lenti í því að bílastæðahlið lokaðist á toppinn hjá mér og dró þakbogana aftur af bílnum. Miklar beyglur en sem betur fer tryggingamál. Kosturinn við þetta var að toppurinn var heilsprautaður og losnaði ég þar með við gatið í toppnum auk ryðbólanna sem voru nokkrar fyrir ofan framrúðuna.
Í maí fór ég sjálfur í bremsunar, skipti um klossa að framan og aftan auk diskana að aftan. Varahlutakostnaður var um 29 þús. Kláraði svo vökvaskiptin með því að láta skipta á sjálfskiptingunni sem kostaði 47 þús með nýrri síju.
Þannig að nú kemur sjokkið:
Mér reiknast til m.v. Það sem að ofan er ritað að á þessum tæpu tveimur árum hafi ég eytt um 780 þús í viðhald á bílnum. Á sama tíma er ég búinn að keyra 11 þús km. Nú ef ég miða við meðaleyðslu upp á 17 lítra á hundraðið (líklega smá ofmat) þá þýðir þetta um 1870 lítra í eyðslu og ef verðið á lítranum er 245kr þá er ég búinn að eyða tæpum 460 þús í bensín. Þannig að kostnaður við rekstur bílsins (fyrir utan bifreiðagjöld og tryggingar) er um 1,24 milljónir og þar af er bensín einungis um 37% af tölunni (ef hann eyddi 12 lítrum á hundraðið væri bensínkostnaður 29% af rekstri). Mín niðurstaða er því sú að ef þú ætlar að fá þér gamlan jeppa þá skiptir eyðsla ekki öllu máli.
Óheppinn?
Var ég óheppinn með eintak? Ég held ekki, allt þetta sem upp er talið er ósköp eðlilegt fyrir bíl sem kom á götuna í Október árið 1997. Vissulega hefði verið hægt að gera hlutina aðeins ódýrari, sleppa vökvaskiptum, sleppa því að skipta um tímareim og vatnsdælu (var 3 ára í bílnum), nota gömlu kertaþræðina, sleppa samlæsingum og öðru pjatti, en ég hugsa þennan bíl sem eign (enda verðlaus í augum flestra). Bíllinn hentar okkur ágætlega, er bíll númer tvö og á helling eftir. En ég geri mér grein fyrir að hann mun þurfa viðhald áfram en ég vona að ég sleppi með 200 til 250 þús á ári á næstunni.
Lokaorð:
Ég vona að þessi langloka mín hjálpi einhverjum sem er í þeim hugleiðingum að kaupa sér gamlan jeppa. Ef ég ætti að gera þetta aftur þá held ég að það eina sem ég gerði öðurvísi væri að kaupa svona öldung sem búið væri að fara í headið á. Þegar bílar eru komnir á þennan aldur þá held ég að það sé í raun bara lottóvinningur að ekki þurfi að fara í headið fljótlega, svona m.v. Það sem ég hef lesið.
