Síða 1 af 1

Nissan Patrol Y60 — 38" breyttur

Posted: 02.okt 2013, 22:56
frá hvati
Jæja. Það kom að því — og þó fyrr hefði verið — að ég eignaðist jeppa. Svo allri rómantík og væmni sé hellt í þennan sögupott þá hefur þetta verið draumur minn síðan ég sá mynd Ferðaklúbbsins 4X4 „Vegir liggja til allra átta“ fyrst í kringum '94. Þessi draumur lagðist í dvala í mörg ár þar sem mér datt ekki hug að ég gæti eignast svona tæki fyrr en, tjah ... ég veit eiginlega ekki hvenær.

Það er að mörgu leiti þessum vef, jeppaspjall.is, að kenna/þakka að þessi draumur lifnaði við eftir að ég flutti heim á Skerið aftur 2010. Þvílíkur hafsjór af fróðleik og skoðanaglamri! Það var samt eiginlega ekki fyrr en síðasta vetur sem ég fór að sjá raunverulegan möguleika á því að komast í þennan takmarkaða hóp fólks sem hefur ánægju af akstri og ferðamennsku.

Ég var búinn að senda margar fyrirspurnir um marga mismunandi bíla og aldrei virtist dæmið ætla að ganga upp sbr. þrjá bíla sem ég „missti“ af í kaupkapphlaupinu. Á endanum óskaði ég eftir bíl hér á spjallinu með bjartsýnina að leiðarljósi og sparifé síðustu tveggja ára.

Í byrjun september var mér boðinn þessi bíll og gerðust hlutirnir alltof hratt. Hvatvísinn hefur gert mér óleik áður og eftri að hafa lesið talsvert af sorgarsögum hérna þá ætlaði ég að hafa vaðið fyrir neðan mig. Ég ákvað að taka sjensinn — einsog oft áður — og á endanum sömdum við um kaupverð sem ég hef bara milli mín og seljanda.

Burt með rómantíkina og inn með staðreyndirnar!

Image

Þetta er semsagt 5 gíra 2.8 TD Nissan Patrol árgerð 1994 (skemmtileg tilviljun að hann er u.þ.b. jafngamall draumnum, fattaði það eftir á, lofa). Bíllinn stendur á 38" dekkjum, Mudder að framan og Ground Hawg að aftan. Þegar ég prófaði bílinn voru Mudderar undir honum að aftan líka en annað þeirra var tappað og seljandi setti annað dekk undir meðan ég útfyllti pappírana, kom þá í ljós þegar ég kom í borgina að það var helvíti slappt dekk sem fór undir hann í staðinn og ég fann þrjú ágæt GH dekk í staðinn sem ég setti undir hann. Betri dekk hafa sést en þessi duga í bili og ég á tvö varadekk ef allt fer í fokk. Þessari dekkjasögu lýkur ekki þar því felgan sem ónýta dekkið var á var með leiðinda rifu á og lak alltaf úr dekkinu. Það tók tvær tilraunir að laga það.

Ég fór með bílinn í smurningu og var tékkað á öllu í leiðinni og þar kom í ljós að bíllinn er í nokkuð góðu ásigkomulagi svona miðað við aldur og fyrri störf. Ég lofaði bílnum að ég skildi passa upp á smurþjónustu hans from now on.

Boddí var tekið af grind fyrir nokkrum árum síðan og skverað upp ásamt grindinni og er því merkilega lítið ryð (þangað til annað kemur í ljós) í bílnum sem var ein megin ástæðan fyrir kaupunum. Bíllinn er bara nokkuð þéttur og þægilegur í akstri og ég held að ég hafi hlunkast með aðra löppina í lukkupottinn.

Ókostirnir:
Þessi glæsivagn er ekinn ekki nema 303.000 þús á grind en skipt var um mótor fyrir einhverjum árum síðan — bara ekki vitað hvenær og hversu nákvæmlega mikið sá mótor er búinn að fara langt.
Sömu sögu er að segja um tímareimina — það er ekki til nein dokkúmentasjón um hversu nýleg hún er en það var skipt um hana fyrir ekki svo löngu síðan.
Engin smurbók eða pappírar komu með honum.
Einsog ég nefndi áður, dekkin, þau fá engin verðlaun.
Hraða- og snúningshraðamælir í ólagi.
Vacum í afturlás er með stæla (fróðari menn segja mér að hafa ekki áhyggjur af því í svona bíl)

Miðað við kaupverðið var ég tilbúinn að díla við þessa ókosti miðað við það.

Það er hitt og þetta sem þarf að gera fyrir hann blessaðann og eru öll ráð mjög vel þegin:
( ) Ath. olíusmit við vél (set inn mynd þegar ég er búinn að einangra vandann)
( ) Klára að ganga frá fóðringum við gírstöng
( ) Ath. afkastagetu rúðupiss, hún er engin
( ) Laga gluggalista á skotthlerum
( ) Laga hraðamæli og virkja snúningshraðamæli
( ) Fá slökkvitæki og sjúkrapúða
( ) Koma honum í gegnum skoðun hið snarasta

Svo er eitt og annað af aukahlutum sem mig langar að koma í og á.

Ég vil svona í lokin koma á framfæri smá takk-i til Bílabúð Benna, Magga hjá Felgur.is og Smurþjónustunni á Hyrjarhöfða — vel tekið á móti manni og vandamálin leyst með bros á vör! Jú og Hobo fyrir fullt af hlutum.

Hlakka til að komast á fjöll og í snjó, fjandakornið!

— Hvati

Re: Nissan Patrol Y60 — 38" breyttur

Posted: 02.okt 2013, 23:16
frá jeepson
Flottur. Er þetta ekki bíllinn sem var með 4.2 bensín mótor fyrst?

Re: Nissan Patrol Y60 — 38" breyttur

Posted: 02.okt 2013, 23:20
frá hvati
Nei, ég er nokkuð viss um að þessi hafi alltaf verið TD.

En svo ef menn luma á fróðleik sem er mér ókunnur varðandi sögu þessa bíls þá er ég opinn fyrir öllu slíku!

Re: Nissan Patrol Y60 — 38" breyttur

Posted: 02.okt 2013, 23:29
frá gunnarb
til hamingju með sjálfrennireiðina. Allir þessir "ókostir" sem þú taldir upp eru ekkert nema kostir. Það verður að vera eitthvað til að dunda sér í :-)

Re: Nissan Patrol Y60 — 38" breyttur

Posted: 02.okt 2013, 23:41
frá Freyr
Lagaðu vacumið fyrir afturlásinn eða slepptu því aldfarið að reyna að nota hann, ÁN undantekninga. Ef það virkar illa og reynt að nota lásinn þá kvarnast úr láshringnum svo a.m.k. hann skemmist og e.t.v. meira þegar brotin/svarfið fer af stað....

Re: Nissan Patrol Y60 — 38" breyttur

Posted: 03.okt 2013, 00:35
frá StefánDal
Til hamingju með jeppann.
Alltaf gaman að því þegar menn gefa sér tíma til að skrifa hérna inni.

Ég myndi í þínum sporum fara strax í það að skifta um tímareim (og kannski vatnsdælu). Maður hefur séð bíla ganga manna á milli með nýupptekinn gírkassa eða nýja heddpakkningu svo árum skiftir. "Það var farið í mótorinn fyrir stuttu síðan" er eitthvað sem menn eiga ekki að treysta á.
Auk þess eru íslenskir jeppakallar ekki alveg með það á hreinu hvort mótorupptekt sé það að skifta um ventlalokspakkningu og smursíu eða komplett upptekt á hreyfanlegum hlutum ;)

Re: Nissan Patrol Y60 — 38" breyttur

Posted: 03.okt 2013, 21:50
frá Stebbi
StefánDal wrote:Auk þess eru íslenskir jeppakallar ekki alveg með það á hreinu hvort mótorupptekt sé það að skifta um ventlalokspakkningu og smursíu eða komplett upptekt á hreyfanlegum hlutum ;)


Ég tek upp vélina í jeppanum hjá mér á 5000km fresti með Prolong Liquid Engine Overhaul og nýrri olíu.


Til hamingju með jeppann og velkomin í hóp bestu vitleysinga í heimi.

Re: Nissan Patrol Y60 — 38" breyttur

Posted: 03.okt 2013, 22:01
frá hobo
Til hamingju með jeppann!
Þeir eru traustir þessir patrolar.

Re: Nissan Patrol Y60 — 38" breyttur

Posted: 03.okt 2013, 22:21
frá hvati
@gunnarb — Til þess er nú leikurinn gerður, mér finnst bráðskemmtilegt að dunda mér í þessu svo framarlega sem ég ræð við vandamálin hehe. Og takk :)

@Freyr — Vacumið er off í húddinu. Ég ætla ekki að nota það neitt fyrr en ég hef fengið þeim mun fróðari mannskap með mér í þær lagfæringar ;)

@StefánDal — Takk. Já, ég draumurinn væri að skvera alla þessa óvissu og vaða í þessi mál. Koma tímar koma ráð!

@Stebbi — Mér var einmitt ráðlagt að gera það sama, skipta oftar um olíu! Takk, orð að sönnu, þetta er örugglega besta vitleysa í heimi hehe.

@hobo — Takk takk! Það eru spennandi tímar framundan ;)

Re: Nissan Patrol Y60 — 38" breyttur

Posted: 03.okt 2013, 23:09
frá jeepson
Oft vilja stýringarnar sem eru á kvalbaknum fara. Þú færð stýringar í landvélum á ca 6-8þús sem eru mun betri en orginal dótið. Ef að þú ert ekki með þetta alveg á hreinu þá skal ég taka mynd af þessum stýringum og setja hérna inn. Það eru svona stýringar í frúar pattanum okkar og ég er að setja svona stýringar í 38" pattann. Þú þarft einn loka sem er normaly open og annan sem er normaly closed.

Re: Nissan Patrol Y60 — 38" breyttur

Posted: 03.okt 2013, 23:27
frá hvati
Já, þú mátt endilega henda inn myndum af þessu! Gott að hafa eitthvað í höndunum þegar ég fer í þessi mál ;)

Re: Nissan Patrol Y60 — 38" breyttur

Posted: 04.okt 2013, 01:07
frá tampon
Til hamingju með fallegan jeppa :D '

kv.Kjartan

Re: Nissan Patrol Y60 — 38" breyttur

Posted: 07.okt 2013, 11:03
frá hvati
Það sem ég ætlaði aldeilis að setja inn uppstillta ljósmynd hérna eftir helgina. Ég var alveg búinn að sjá þetta fyrir mér, Hvítárvatn í bakgrunni eða Kerlingafjöll. Sullugangur í einhverri sprænunni. Nú eða bara drulluskítugur Kolatogarinn á Kjalvegi. Ég tók meira að segja stóru myndavélina með!

Mér þykir það leitt en slíkar landslagsmyndir verða að bíða betri tíma og þessi verður að njóta sín:

Image

Ég komst ekki lengra en á Olís á Selfossi. Sem betur fer var ég búinn að lesa helling af sögum og bilanagreiningum hérna á Jeppaspjallinu svo ég hafði vit fyrir því að stoppa bílinn og djöflast ekki áfram.

Bíllinn byrjaði skyndilega að nötra og stýrið víbraði í rugl. Ég var alveg viss um að þetta væri bara ónýtt malbik eftir vörubílatraffíkina við malarnámið í Ingólfsfjalli en það runnu á mig tvær grímur þegar óhljóðin byrjuðu. Ég hægði á mér og bíllinn lét illa að stjórn. Ég beygði strax inn á Olís-planið og lagði í stæði þar með tilheyrandi hávaða og sargi. Og viti menn, það hefði verið hægt að grilla fyrir sjö manna fjölskyldu á driflokunni! Shit hvað hún var heit ... og dekkið skakkt!

Eins og ég sagði þá var ég alveg með greininguna á hreinu eftir fagbókmenntalestur á þessu spjalli og hringdum við strax í tengdó sem kom og sótti farþegana og selflutti þá áfram á Flúðir — þar sem við ætluðum sko að hafa það kósí í heitum potti með útþanda maga af bjórdrykkju. Mjög viðkunnalegur náungi á Selfossi renndi við og henti tjakki undir draslið og staðfesti grun minn en taldi þetta vera meira skemmt en bara hjólalegan.

Sumsé, farþegarnir komust á flúðir. Ég tók strætó til RVK-City og sótti hinn fjölskyldubílinn. Þá fattaði ég að húslyklarnir voru á Flúðum með hinum farþegunum svo ég þurfti að labba til foreldra minna og ná í lykla. Skemmst er frá því að segja að ég tók vitlausa lykla í öllu fátinu og þurfti því að fara aftur til þeirra og sækja lykla. Eftir mikið bull komst ég loksins á Flúðir, heill á höldnu.

Daginn eftir fór ég á Selfoss og hitti viðkunnalega náungann aftur, Unnar hjá Bíltaki. Hann hjálpaði mér með Kolatogarann á verkstæðið sitt og við tjökkuðum bílinn upp og ekki dugði minna til en þrjá vana menn til að dást að skemmdunum. Farinn hjólalega, nafstútur og drifloka og kom svo í ljós sprunga í bremsudisk. Fjör.

Unnar&Co björguðu mér! Unnar meira að segja reif nafstútinn og driflokuna af sínum bíl svo ég kæmi bílnum út á götu. Ég kom svo á Kolatogaranum á Flúðir rétt fyrir 17.00 á laugardaginn var.

Það er engin tröllasaga — þjónustulundin og hjálpsemin — hjá þessum eðalmönnum á landsbyggðinni! Ég bíð svo spenntur eftir því að fá reikninginn!

En annars var nú bara býsna ljúft að rúlla um malbikaða vegi landsins á þessu farartæki. Hlakka til að kynnast slóðunum betur!

Fall er fararheill sagði einhver!

P.S. Takk Kjartan fyrir falleg orð :)

Re: Nissan Patrol Y60 — 38" breyttur

Posted: 07.okt 2013, 12:02
frá trooper
TIl hamingju með jeppann, fall er fararheill og þessi Unnar er greinilega toppnáungi.
Mér sýnist stefna í að þessi þráður verði með þeim skemmtilegri að mínu viti. :)
Góðar stundir. Kv. Hjalti

Re: Nissan Patrol Y60 — 38" breyttur

Posted: 07.okt 2013, 20:14
frá hvati
Takk fyrir það Hjalti! Gaman að sjá að það eru einhverjir sem nenna að lesa þessar romsur ;)

Re: Nissan Patrol Y60 — 38" breyttur

Posted: 07.okt 2013, 21:04
frá hobo
Gaman að lesa svona ritgerðir, sérstaklega þegar vel og skemmtilega er sagt frá og menn hafa húmor fyrir sjálfum sér.
Mín reynsla í þessu sporti af síðustu 3 bílum, er að eftir kaupsamning koma í ljós fullt af "smá"atriðum sem þarf að laga eða betrumbæta.
Kannski bíður maður upp á það með að kaupa ódýra bíla... en allavega um að gera að taka stutta túra til að byrja með, svona til að geta treyst bílnum.

Re: Nissan Patrol Y60 — 38" breyttur

Posted: 07.okt 2013, 21:12
frá hvati
Jú, mikið rétt, það eiga vafalaust eftir að koma fleiri „eftir-kaupsamnings-verkefni“ í ljós. Ég ætla að reyna að sniglast eitthvert hérna ekki langt frá höfuðborgarsvæðinu seinna í mánuðinum og láta reyna á hina og þessa hluti.

En gott að heyra, aftur, að menn lesa þetta ;)

Re: Nissan Patrol Y60 — 38" breyttur

Posted: 07.okt 2013, 22:47
frá IL2
Vera með reiðhjól aftur í til að bjarga sér!

Re: Nissan Patrol Y60 — 38" breyttur

Posted: 08.okt 2013, 11:47
frá hvati
HAHA! Hvernig væri það!? Það er allavega nóg af plássi í skottinu :)

Re: Nissan Patrol Y60 — 38" breyttur

Posted: 08.okt 2013, 15:57
frá StefánDal
Þú ert mjög skemmtilegur penni. Ég býð spenntur eftir ferðasögum :)

Re: Nissan Patrol Y60 — 38" breyttur

Posted: 25.okt 2013, 09:08
frá hvati
Ferðasaga:

Fór út í Geldinganes bara svona aðeins til þess að viðra Kolatogarann og komast í smá ekki-malbik. Það reyndist stutt ferð því það er víst búið að loka slóðanum um leið og maður kemst á hinn endann við flóðagarðinn. Þannig að ég fór bara heim að gera við olíuleka.

Endir

— — —

En þessi olíuleki er efni í frásögn:

Það er ljótt að gera aðhlátursefni úr sjúkdómum og einkennum þeirra en ég kemst ekki hjá því. Ég er búinn að greina Kolatogarann með lekanda. Jú, sjáiði til, þegar ég kaupi bílinn þá lekur loft úr hægra afturhjóli. Ég reddaði því. Því næst fór olíulekinn að bera meira á sér. Ég reyndi að laga hann og þykist vera búinn að því en þá kemur í ljós að það drippar aðeins úr helvítis vatnskassanum — ergo, krónískur lekandi. Og eins og sönnun kynsjúkdómi sæmir þá smitar hann hratt og örugglega ef fyllstu varúðar er ekki gætt en ég frétti í gærkvöldi að annar heimilisbíll foreldra minna þurfti að fara til læknis í gær sökum olíuleka (ég gerði við Kolatogarann á bílastæðinu þeirra).

Hafið varann á piltar — öryggið á oddinn!

Re: Nissan Patrol Y60 — 38" breyttur

Posted: 25.okt 2013, 10:23
frá Púmba Þ
Unnar er mikill toppmaður og alltaf tilbúinn að hjálpa náunganum!
En tímareimin í þessum bíl er rétt ný, ekki einu sinni ársgömul, ég þekki son fyrri eiganda af þessum bíl, og ég var með honum þegar hann skipti um þessa reim ;)
En þessi er góður, fórum undanfarin 2 haust í haustlitaferðir á þessum, kom okkur alltaf heim aftur ;)

Re: Nissan Patrol Y60 — 38" breyttur

Posted: 25.okt 2013, 13:26
frá hvati
Það gleður mig að heyra Púmba! :)