Ég keypti mér 42" Good Year dekk undir jeppann og vantaði því felgur. Ég keypti mér 17" original stálfelgur undan Toyota LC. Líklega 120 bíl sem ég fékk á skaplegu verði. Þær voru náttúrulega allt of mjóar, líklega 7-8" því var hafist handa við að breikka þær:
Hér er ég fyrst og fremst að sýna rennibekk fátæka mannsins. Þetta er semsagt afturöxull úr Nissan Patrol, og leguhúsið utan um hjólleguna á öxlinum er boltað niður á stálborð. Felgan er boltuð á öxulinn og skorin í sundur með slípirokk sem er studdur af boltafestingu við borðið líka. Trixið í þessu er að slípirokkurinn snýr felgunni á talsverðri ferð á meðan hann sker, það gerir að verkum að þetta virkar svipað og rennibekkur.

Þar sem ég nennti ómögulega að smíða vals fátæka mannsins fékk ég vélsmiðju til að valsa fyrir mig tunnurnar sem breikka felgurnar. Ég notaði 3mm efni í tunnurnar sem er lágmarksþykkt í breytta jeppa að mínu mati. Þessar ágætu Toyota felgur eru með þykkri miðju og þokkalegar, að breikka þær er samt talsvert maus því að það þarf að færa til miðjuna í þeim. Hér er ég búinn að punkta tunnurnar við felgukantana og slípa miðjurnar lausar sem er seinlegt og óþrifalegt verk.

Miðjuhlemmurinn þarf að færast úr kanti felgunnar og inn í tunnuna. Hann þarf því að minnka talsvert. Að sjálfsögðu var hlemmunum skellt í "rennibekkinn" og skorið utan af þeim með skurðarskífu. Síðan var hann tekinn í "mál" með slípiskífu og á meðan á því stóð var reynt að láta hlemminn snúast eins hratt og kostur var - sem var svosem lítið mál.

Því næst var hlemmurinn (felgumiðjan) sett í bekkinn og tunnuni stillt upp, mælt og pælt og punktað og felgunni snúið til fram og aftur til að reyna að fá þetta sem réttast. Ekki er hægt að leggja of mikla áherslu á að vanda sig við þessar tilfæringar.

Svo endaði þetta í því að miðja og tunna voru soðin í döðlur eins og vera ber.

Síðan ákvað ég að bora fyrir 1/4" suðumúffum og sjóða tvær slíkar í hverja felgu, nokkurn veginn andspænis í hringnum til að balansinn yrði einhver. Önnur skyldi vera fyrir krana og hin til vara fyrir pumpusystem, eða hver veit hvað. Loks var settur á þetta grunnur. Mistökin hér eru þau að þetta er einhver fjárans spreybrúsagrunnur sem engin leið er að mæla með. Megin reglan er sú að ef maður stendur enn eftir að þefa rækilega af stálgrunni - þá er hann drasl. Hér hefði banreitraður Epoxy átt að fara á og engar refjar.

----------------
Þegar hér var komið sögu var dekki troðið á felgu og þá kom í ljós að þessi 42" Good Year lak upp á kantana á felgunum við rétt liðlega 12 punda loftþrýsting. Það kom ekki einu sinni almennilegur smellur þegar kantarnir á dekkjunum fóru að felgunum! Að sama skapi var fremur auðvelt að affelga dekkið með langri vogarstöng. Eftir nokkur heilabrot komst ég að því að mig langaði ekkert til að fara með þetta á fjöll og standa í affelgunnar veseni með þetta dót. Því var hafist handa við að útbúa kantálsa á felgurnar.
Ég fór í því út á bílastæði með vasahnífinn og náði mér í bút úr dekki undan nærliggjandi bifreið og byrjaði að spegúlera.

Hér verða ekki tíundaðir vankantar á hefðbundnum kantlásum sem eru settir utan á felgur. En þeir eru nokkrir. Hér sést þessi hugmynd skömmu eftir fæðingu. Ég held að myndirnar tali sínu máli um hvernig þetta virkar.

Flatjárnsbútarnir liggja við felguna í annan endann, boltarnir gegnum felguna spenna gjarðirnar (völsuð stálrör) að kantinum með verulegu átaki.

Verið að máta og pæla.

Hér eru gjarðir í eina felgu, lokaútfærslan var að sjóða 8mm rær innan á flatjárnin. Boltarnir koma gegnum felgurnar og beint í þá ró, það eru engar aðrar rær (það sjást fleiri rær á myndum hér ofar).

Nú, þar sem engin kantlás er að innanverðu á felgunum þá grunnaði ég felgurnar 6 umferðir með Bit ætigrunni á kantinn til að stækka þær. Það var nógur tími til þess meðan ég velti fyrir mér kantlásnum að utanverðunni. Það þurfti nokkrar spegúleringar til að koma dekkjunum á felgurnar með gjörðunum inn í. Ekki síst vegna þess að þetta voru ný dekk og það þurfti að koma lofti í þau til að pressa ytri kantinn upp á felguna áður en hægt er að bolta gjörðina fasta - með öll þessi boltagöt gegnum felguna. Það var leyst með því að setja smá tape búta yfir götin að innanverðu sem virkaði fínt. Teipinu var síðan ýtt inn í dekkið þegar boltarnir fóru í. Endagötin í hvorri gjörð voru þó ekki teipuð - Ég þræddi 6mm nylon loftlagnaefni gegnum felguna, gegnum róna og aftur gegnum róna í hinum enda gjarðarinnar og svo út um rétt gat á felgunni. Setti smá tape á nylonið við felgugötin til að það þétti meðan ég felgaði dekkið. Síðan dró ég gjarðirnar á sinn stað með því að toga í nylonrörin utanfrá og stakk boltum í og dró loks rörin út og stakk endaboltunum á sinn stað.

Hér eru myndir af þessum æfingum.


Hér er þetta síðan komið undir bíl. Ég notaði rústfría bolta í þetta og eftir nokkrar æfingar með exótískar þéttiaðferðir við boltahausana (límkítti, silicone, flangsalím) komst ég að því að gömlu góðu koparhringirnir, eða svokallaðir USIT hringir virka best undir boltahausana við felguna sem þétting.

Þegar þessi gangur fór í balanseringu þá þurfti 40, 50, 80 og 300gr á felgurnar. Satt að segja kom það mér mjög á óvart hvað þurfti lítið á þrjú dekkjanna, hafandi í huga frumstæðar aðferðir við breikkun og ekki síður fremur óvísindalega smíði á gjörðunum. Ég veit ekki af hverju eitt dekkið þurfti 300 gr, mig grunar að ég hafi flýtt mér of mikið við að stilla felguna af þegar ég setti í hana miðjuna.
Það er búið að keyra á þessu líklega 8 þús km. Verulegur hluti af því er á grófum vegum með mjúkt í dekkjunum (8-10 psi) t.d Þórsmörk 5 ferðir, Fjallabaksleiðir, Sultarfit os. frv. Einnig er ég búinn að keyra á þessu í snjó við 1.5-3 psi töluvert. Síðasta vetur t.d frá Kvíslaveitum, norður fyrir Hofsjökul í Skiptabakka og síðan niður allan Kjöl á 1,5 pundum. Engin vandræði með þetta system.