krissi200 wrote:Fleiri?
MUSSO BREYTT FYRIR 38 TOMMUR
Stendur vel undir væntingum mínum
30 SsangYong Musso jeppar eru nú komnir á götuna hér á landi. Þetta hlýtur að teljast dágóð sala því bíllinn hefur aðeins verið einn mánuð á markaði hérlendis. Von er á tólf bílum í næstu viku og eru þeir allir seldir. Viðtökurnar á Musso hér á landi hafa komið framleiðendum bílsins í Suður-Kóreu þægilega á óvart.
MUSSO BREYTT FYRIR 38 TOMMUR
Stendur vel undir
væntingum mínum
30 SsangYong Musso jeppar eru nú komnir á götuna hér á landi. Þetta hlýtur að teljast dágóð sala því bíllinn hefur aðeins verið einn mánuð á markaði hérlendis. Von er á tólf bílum í næstu viku og eru þeir allir seldir. Viðtökurnar á Musso hér á landi hafa komið framleiðendum bílsins í Suður-Kóreu þægilega á óvart. Nú hefur fyrsta Musso bílnum verið breytt fyrir 38 tommu dekk og það er umboðsaðilinn, Bílabúð Benna sem sá um breytingarnar.
Bíllinn, sem er í eigu Haralds Kristóferssonar, kom með fyrstu sendingunni í byrjun júnímánaðar. Bíllinn er með fimm strokka dísilvél frá Mercedes-Benz og forþjöppu og millikæli, 132 hestafla.
Skorið var úr brettunum og hásingunum stillt undir hann þannig að hann stóð á 38 tommu dekkjum á frumsýningunni í Bílabúð Benna.
Harald var upphaflega að velta því fyrir sér að flytja inn notaðan bíl frá Evrópu, helst japanskan, og láta breyta honum. Hann féll hins vegar strax fyrir Musso þegar hann sá hann.
Einn rifinn í sundur
Benedikt Eyjólfsson, eigandi Bílabúðar Benna, segir að um leið og bílarnir komu til landsins var einn þeirra gersamlega rifinn í sundur. "Við vildum skoða drifin og allt kramið í honum. Bíllinn var búinn að vera í þrjár klukkustundir hér inni og þá voru hásingarnar bæði að aftan og framan komnar í sundur. Við sáum að þetta voru amerísk drif sem við áttum til á lager hérna. Þegar við sáum að drifhlutföllin og læsingarnar passa ákváðum við að hækka hann beint upp í 38 tommur en Harald var að velta fyrir sér 35 tommum," sagði Benedikt.
Afturhásingin var færð aftur um tólf sentimetra með því að færa bita sem gormafestingar, demparafestingar og skástífa er fest á. Stífurnar voru lengdar um samsvarandi lengd. Ekkert þurfti að klippa úr afturbrettunum framanverðum en klippt var úr þeim aftanverðum. Hjólaskálin er það stór að ekkert þurfti að klippa inn í sjálfan bílinn, eins og algengt er að þurfi að gera á öðrum bílum. Með því að færa afturhásinguna aftur um tólf sentimetra verður bíllinn betri í torfærum og snjó og stöðugri. Notaðar voru innvíðar felgur þannig að hægt er að nota sömu brettakantana fyrir 35 og 38 tommur sem hefur í för með sér mikinn hönnunarsparnað.
Yfirbygging hækkuð um 10 cm
Smíðaðir voru brettakantar á bílinn að framan og aftan og reynt var að hafa útlitið í samræmi við upphaflegt útlit bílsins. Afturbrettakantarnir koma ekki inn á afturhurðina eins og oft gerist þegar öðrum bílum er breytt. Boddíið var hækkað um tíu sentimetra. Benedikt segir að þeir bílar hafa verið hækkaðir á yfirbyggingu hafi hún stundum viljað liðast í sundur. Ástæðan er sú að boddífestingarnar hafa ekki verið færðar upp. Núna er Bílabúð Benna almennt farin að færa 2-4 boddífestingar þegar bílar eru hækkaðir. Sex boddífestingar voru færðar upp á Musso Haralds þannig að bíllinn verður stöðugri fyrir vikið. Einnig var hægt að stækka eldsneytistankinn um tíu sentimetra. Tankurinn er úr plasti og var hann stækkaður úr 80 lítrum í 140 lítra.
Sett voru 5:38 hlutföll í hásingarnar, ástralskar loftlæsingar að aftan og framan, ný gerð loftdælu til að dæla í hjólbarðana. Stuðarar voru færðir upp og smíðað á hann dráttarbeisli.
Bíllinn reynist framar vonum
Harald kveðst lítið hafa reynt bílinn ennþá enda tiltölulega nýkominn á hann. Þó skrapp hann á honum til Þórsmerkur. "Bíllinn reynist mér alveg framar vonum," segir Harald.
Hann hefur átt marga jeppa um dagana og verið með bíladellu frá því hann fékk bílpróf. Síðast átti Harald lengdan Toyota Double Cab og þar á undan Bronco II.
"Mér finnst helst við Musso náttúrulega útlitið og svo er hann með góða vél og gott kram. Þetta er rúmgóður bíll og skemmtilegt að keyra hann. Vinnslan er góð miðað við það að þetta er dísilbíll og hann togar vel. Ég var með fellihýsi aftan í honum þegar ég fór inn í Þórsmörk. Það kom mér verulega á óvart hvað hann fór létt með þetta. Fellihýsið sjálft vegur um 500 kg og svo var í því mikill farangur sem reikna má með að hafi vegið nálægt 600 kg. Svo vorum við fjögur í bílnum og farangur í honum. Bíllinn sveif þetta áfram eins og ég hefði keyrt Toyotuna tóma. Hann stendur fyllilega undir væntingum og gott betur," sagði Harald.
Fullmjúkur að framan
Musso kemur á gasdempurum. Harald sagði að vegurinn inn í Þórsmörk hefði verið frekar leiðinlegur en bíllinn hefði þó farið vel á vegi.
"Hann er alls ekki hastur bíllinn og ef eitthvað er þá er hann frekar mjúkur til þess að vera í verulegum torfæum. Þá vil ég hafa bílana frekar stífari að framan svo þeir taki ekki dýfur. Það gerir Musso ef torfærurnar eru miklar. Lausnin á þessu er sú að setja undir hann Rancho 9000 stillanlega dempara. Ég er að spá í að gera það," sagði Harald.
Harald var með Rancho 9000 dempara undir Toyota bílnum en þeir eru með lítilli loftdælu og bílstjórinn á kost á fimm mismunandi stillingum að framan og aftan með því að þrýsta á hnapp í mælaborði.
Morgunblaðið/Kristinn AFTURHÁSINGAR voru færðar aftur um tólf sentimetra.
Morgunblaðið/Kristinn SKORIÐ var úr afturbrettunum aftanverðum en ekkert þurfti að klippa inn í sjálfan bílinn.
Morgunblaðið/Kristinn STARFSMAÐUR Bílabúðar Benna vinnur að breytingum á SsangYong Musso Haralds.
Morgunblaðið/Gunnlaugur Rögnvaldsson BENEDIKT Eyjólfsson, eigandi Bílabúðar Benna, prófar bílinn eftir breytingarnar.