Síða 1 af 1

Benz SLK á fjöllum??

Posted: 30.apr 2010, 01:32
frá joisnaer
Image

fer ég ekki með rétt mál eða var ekki einhvertíman svona bíll hér landi að djöflast eitthvað utanvegar??

og ef svo var man ekki einhver eftir því og gæti hugsanlega lumað á myndum af þeirri græju
??

Re: Benz SLK á fjöllum??

Posted: 30.apr 2010, 03:31
frá jeepcj7
Það kom fyrir nokkrum árum einhver milljónamæringur sem var á leið í hring um jörðina og tók hringinn um landið á einhverju svona skrípi um hávetur ef ég man rétt og gott ef hann var ekki með kerru líka.Ekki man ég akkúrat núna hvað gaurinn hét.

Re: Benz SLK á fjöllum??

Posted: 30.apr 2010, 09:49
frá geiri23
þessa fann ég í mínu myndasanfni

Image

Re: Benz SLK á fjöllum??

Posted: 30.apr 2010, 10:37
frá joisnaer
já, þetta er trefill!

Re: Benz SLK á fjöllum??

Posted: 30.apr 2010, 11:19
frá gislisveri
Hann er víst hagfræðingur. Kláraði ekki hringinn sökum hálku á þjóðveginum.

Re: Benz SLK á fjöllum??

Posted: 01.maí 2010, 20:54
frá ThOl
Þetta er MB G módel með SLK yfirbyggingu. Það var grein um þetta í blöðum einhvern tíma og karlinn ætlaði hringinn um heiminn.

Re: Benz SLK á fjöllum??

Posted: 01.maí 2010, 21:49
frá Grétar
Grein í mbl frá 1998:


Mesta furðusmíð en mistækur í notkun

GLK sportjeppi Rogers var fluttur úr landi síðastliðinn þriðjudag áleiðis til Írlands þar sem hnattferð hans heldur áfram. Héðan heldur Rogers með góðar minningar í farteskinu og dálítið hastarleg kynni af íslenska vetrinum. Rogers nýtur stuðnings ýmissa fyrirtækja við hnattferð sína. Bíllinn var merktur helstu stuðningsaðilum við ferðina til Íslands, þ.e.


GLK sportjeppi Jim Rogers prófaður

Mesta furðusmíð en mistækur í notkun

Hverjum hefði dottið í hug að búa til nýjan bíl úr jafnólíkum bílum og SLK sportjeppanum og Geländewagen jeppanum, öðrum en auðkýfingnum og ævintýramanninum geðþekka, Jim Rogers. Guðjón Guðmundsson prófaði bílinn og Árni Sæberg myndaði hann.

GLK sportjeppi Rogers var fluttur úr landi síðastliðinn þriðjudag áleiðis til Írlands þar sem hnattferð hans heldur áfram. Héðan heldur Rogers með góðar minningar í farteskinu og dálítið hastarleg kynni af íslenska vetrinum.

Rogers nýtur stuðnings ýmissa fyrirtækja við hnattferð sína. Bíllinn var merktur helstu stuðningsaðilum við ferðina til Íslands, þ.e. Flugleiðum, Eimskip og Ræsi, umboðsaðila Mercedes-Benz. Hluti af endurgjaldinu fólst í kynningu á bílnum hérlendis og fengu blaðamenn að reynsluaka nýstárlegu farartæki Rogers part úr degi. Forsjónin hagaði því svo að snjó kyngdi niður rétt áður en haldið var í reynsluaksturinn og gátu aðstæður því vart verið betri til að kynnast eiginleikum bílsins við íslenskar vetraraðstæður. Eins og vænta mátti vakti jeppinn óskipta athygli þann stutta tíma sem honum var reynsluekið í borginni og nágrenni og gátu þeir forvitnustu ekki stillt sig um að elta bílinn á röndum til að berja hann enn frekar augum.

Hvar er veggripið?

Það var þó eiginlega með hálfum huga sem bíllinn var fenginn að láni því það er áætlað að það hafi kostað um 34 milljónir króna að smíða gripinn og um þrjár milljónir að smíða kerruna. Kerran, sem geymir allan farangur, vatns- og olíubirgðir, í hnattreisunni, fékk að þessu sinni frí. Það var því farið varlega með gersemina og engar sérstakar kúnstir viðhafðar. Ekki vildi prófari verða til þess að seinka hnattferð Jim Rogers og unnustu hans Paige Parker.

Þó gat hann ekki stillt sig um að hleypa lítillega á skeið á snæviþöktu bílastæðaplaninu við gervigrasvöllinn í Laugardal. Bíllinn er mun þyngri og svifaseinni en maður myndi ætla. Yfirbyggingin blekkir augað. GLK er fyrst og síðast jeppi en á í raun ekkert skylt með sportbíl.

Sex strokka dísilvélin er með forþjöppu og skilar um 177 hestöflum. Forþjappan er dálítið lengi að koma inn en þegar hún vaknar af dvalanum rífur þessi vél bílinn áfram með látum. En það kostar líka mikla inngjöf og ef að líkum lætur mikla eyðslu.

Þegar freistast var til að gefa bílnum hraustlega inn á planinu í Laugardal varð hann nánast stjórnlaus í snjónum vegna hliðarskriðs. Það var búið að taka undan honum nagladekkin sem Rogers lét setja undir hann á Egilsstöðum í hringferð sinni um landið enda varla að vænta mikilla skafla á næsta viðkomustað á Írlandi. Bíllinn var kominn á ónegld Bridgestone heilsársdekk og var háll sem áll. Bíllinn er líka afar stuttur og fer því frekar á hliðarskrið en lengri bílar en ætti líklega fyrir vikið að ráða betur við börð og árfarvegi sem eru margir, (uppþornaðir), í eyðimörkum Afríku.

Lítill og æði sérstakur

Það kom á óvart að sjá bílinn með berum augunum. Hann er mun minni en maður hafði gert sér í hugarlund og í raun hin mesta furðusmíði.

Undirvagninn, afl- og drifrásin er úr styttri gerð G-jeppans gamla sem er reyndar ennþá í framleiðslu en kom fyrst á markað 1979. Þetta er sterkur og mikill undirvagn og það þótti mæla með notkun hans að hjólhaf G-jeppans og SLK sportbílsins er svipað en það var einmitt yfirbygging af SLK sem var skeytt og soðin á jeppagrindina með tilheyrandi breytingum. Skera varð úr brettum til að koma undirvagninum undir.

Bíllinn er á átján tommu léttmálmsfelgum og virðist eins og skorið hafi verið of mikið úr brettum. Bíllinn virðist léttilega getað sómt sér á allt að 31 tommu dekkjum sem myndi bæta flotið á torförnum slóðum, eins og á Íslandi og ekki síst í Sahara eyðimörkinni þar sem leið skötuhjúanna á eftir að liggja.

Bíllinn er með millikassa og 100% læsing er á drifum. Sjálfskiptingin er fjögurra þrepa og skiptingin er í gólfi milli sætanna. Innréttingin er að mestu eins og í SLK sportbílnum, tvö leðurklædd, upphitanleg sæti, rafstýrðar rúður og einhvers staðar átti að vera rofi til að fella þakið niður í farangursgeymsluna. Það er ekki mikið afgangsrými í bílnum þegar tveir eru sestir upp í hann. Geymslupláss er í kerrunni góðu sem nú var fjarri góðu gamni. Fyrir miðju mælaborði er Alpine hljómtæki með leiðsögukerfi sem rennur út úr hólfi í mælaborðinu þegar þrýst er á hnapp. Þegar það er í notkun skyggir það hins vegar á miðstöðvarrofana.

Með þeim hastari

Við smíði bílsins reyndist einna mestum erfiðleikum bundið til að fá rafkerfi bílsins til að virka. Ekki er ljóst hvort það var klaufaskapur eða galli í rafkerfinu sem olli því að ekki fékkst ljós á mælana í bílnum og erfiðleikum var bundið að slökkva á stöðuljósunum.

Undirvagninn er sem fyrr segir af G-jeppanum. Skipta varð út upprunalegri gormafjöðrun G-jeppans fyrir stífari gorma því annars hefði yfirbyggingin orðið of háreist. Þetta veldur því að bíllinn er í sannleika sagt afar hastur og fremur óþægilegur í akstri. Vari ökumaður sig ekki í tíma á hraðahindrunum á hann á hættu að skella höfðinu í þak bílsins og á hæðóttum troðningum lætur bíllinn illa.

Niðurstaðan af stuttum kynnum af GLK er sú að hann eigi langt í land með að teljast skemmtilegt farartæki. Af reynslunni af honum í snjó má draga í efa að hann sé ákjósanlegasti kosturinn í púðursandinum í Sahara eða snæviþöktum steppum Síberíu.

Bíllinn er nokkurs konar tilraun en ljóst er að bæta mætti hann verulega með annars konar fjöðrunarbúnaði og jafnvel stærri hjólbörðum. Eftir situr að aksturseiginleikarnir eru langt frá því besta sem Mercedes- Benz er þekkt fyrir að bjóða og innanrýmið er af skornum skammti. En bíllinn vekur óneitanlega mikla athygli sem var líklega eitt helsta markmiðið með hönnun hans.

ÞAÐ má finna hinar undarlegustu línur í GLK jeppanum.

BÍLLINN er stuttur og hár og óneitanlega eru línurnar renni legri í öðrum jeppum.

AUK þess skorið var úr brettum SLK yfirbyggingarinnar voru smíðaðar sérstakar einingar til að skýla undirvagninum.

ALLT sportlegt og þröngt að innan.

MILLI sætanna eru rofar fyrir driflæsingar.

VÉLIN er með forþjöppu og skilar 177 hestöflum.