Aðeins til umhugsunar

User avatar

Höfundur þráðar
Kiddi
Innlegg: 1160
Skráður: 02.feb 2010, 10:32
Fullt nafn: Kristinn Magnússon
Bíltegund: Wrangler 44"

Aðeins til umhugsunar

Postfrá Kiddi » 11.mar 2014, 19:13

Þetta er eitthvað sem allir ættu að taka alvarlega ef þeir vilja á annað borð geta ferðast um Ísland að vetri til án þess að gista í bílnum eða tjalda!
Það er ekkert sem skyldar ferðafélögin til að hleypa hverjum sem er inn í skálana að vetri til¨og allt svona hvort sem það eru skemmdarverk af ásetningi, slæmur frágangur á gluggum og dyrum eða hreinlega að skilja kyndingu eftir í hvínandi botni (eins og dæmi er um) gerir ekkert nema spilla fyrir okkur öllum.


http://www.ruv.is/frett/ganga-orna-sinn ... allaskalum

Ganga örna sinna innandyra í fjallaskálum

Dæmi er um að menn hafi gengið örna sinna innandyra í anddyri fjallaskála. Almennri umgengni og hreinlæti ferðamanna hefur einnig farið aftur og áfengisneysla hefur stundum farið úr böndunum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingu níu ferða-og útivistarfélaga vegna umgengni í fjallaskálum.

Í yfirlýsingunni segir enn fremur að síðasta vetur hafi tvær kamínur horfið úr tveimur skálum nálægt Langjökli síðasta vetur. Þórhallur Þorsteinsson, sem er í forsvari fyrir Ferðafélag Fljótsdalshéraðs, telur að það segi sína sögu hversu slæmt ástandið er hversu mörg ferðafélög skrifi undir þessa yfirlýsingu. Meðal þeirra eru Ferðafélagið Útivist, Ferðafélag Íslands og Ferðaklúbburinn 4x4.

Félögin vilja hvetja ferðamenn til að taka höndum saman og bæta bæði umgengni og ferðahegðun. Þórhallur segir að menn hafi mestar áhyggjur af áfengisneyslu upp á fjöllum - slíkt kunni aldrei góðri lukku að stýra.

Þórhallur, sem hefur verið lengi að, segir að þetta minni sig á svipað ástand og var fyrir nokkrum árum - þá hafi orðið alvarleg slys og við slíku verði að sporna. „Við erum að reyna að stoppa þetta af áður en við fáum slíkt yfir okkur aftur.“ Þórhallur segir þessa umgengni vera virðingarleysi við skálana og við ferðamennina sem hafi aðgang að þessum skálum.

Þórhallur segir að stundum geti tjónið hlaupið á hundruð þúsunda. Dýnur séu ónýtar, dyrum og gluggum sé ekki lokað þegar hópar yfirgefa skála og það hafi leitt til stórskemmda þegar snjóar inn.

Hann segir að þetta sé í fyrsta skipti sem hlutum sé stolið úr fjallaskálunum og með þessari yfirlýsingu vilji þeir höfða til samvisku ferðamanna - þeir láti vita af fólki sem gangi illa um. „Kannski verðum við útiloka einhverja frá þessum fjallaskálum eða takmarka aðgengi að þeim. Við höfum neyðst til að læsa sumum af illri nauðsyn.“
Síðast breytt af Kiddi þann 11.mar 2014, 19:21, breytt 1 sinni samtals.



User avatar

Höfundur þráðar
Kiddi
Innlegg: 1160
Skráður: 02.feb 2010, 10:32
Fullt nafn: Kristinn Magnússon
Bíltegund: Wrangler 44"

Re: Aðeins til umhugsunar

Postfrá Kiddi » 11.mar 2014, 19:15

Svo er hér yfirlýsingin beint frá ferðafélögunum

Umgengni ferðamanna í fjallaskálum fer versnandi

Umgengni ferðamanna í fjallaskálum hefur farið versnandi undanfarin misseri. Stöðugt færist í vöxt að dyrum og gluggum sé ekki lokað þegar hópar yfirgefa skála og hefur það leitt til stórskemmda þegar snjóar inn. Almennri umgengni og hreinlæti ferðamanna í fjallaskálum fer einnig aftur. Góður ferðamaður leggur metnað sinn í að skilja við húsnæði hreint, gólf þvegin sem og borð og bekki. Hann skilur ekki eftir sorp eða óuppþvegin matarílát og afganga. Áfengisneysla í fjallaskálum fer stundum úr böndum en ætti ekki að þekkjast á fjöllum eða að vera tilgangur fjallaferða. Í einstaka tilvikum hefur það leitt til þess að ferðamenn ganga jafnvel örna sinna innandyra í anddyri fjallaskála eða í nágrenni þeirra.

Dæmi eru um að hluta af búnaði eða innréttingum og lausamunum hafi verið stolið úr fjallaskálum og hafa t.d. horfið kamínur úr tveimur skálum nálægt Langjökli síðustu vetur. Varla þarf að taka fram að hegðun örfárra setur auðveldlega blett á stóran hóp ferðamanna sem flestir fara til fjalla til að njóta lífsins og þeirrar fegurðar sem íslensk náttúra býr yfir.

Þau félög sem skrifa undir þessa yfirlýsingu vilja höfða til allra ferðamanna um að taka höndum saman og bæta umgengni og ferðahegðun. Við viljum biðja þá sem verða vitni að slæmri hegðun og sóðaskap eða lögbrotum og hættulegu athæfi á borð við akstur undir áhrifum áfengis að reyna eftir megni að veita ferðamönnum aðhald með ábendingum og vísa afbrotum til lögreglu. Myndir og skráning númera ökutækja geta veitt aðhald á sama hátt og þögn og afskiptaleysi ýtir undir slæma hegðun og heimilar hana óbeint.

Enginn ferðamaður vill láta einstaklinga án dómgreindar varpa skugga á allan hópinn. Umgengni sýnir innri mann og framferði manna þegar þeir halda að engin vitni séu til staðar og öll siðmenning víðsfjarri talar sínu máli um innræti þeirra. Tökum höndum saman og bætum ástandið.

Ferðafélag Íslands
Ferðafélag Akureyrar
Ferðafélag Fljótsdalshéraðs
Ferðafélag Húsavíkur
Ferðafélag A- Skaftfellinga
Ferðafélagið Útivist
Ferðaklúbburinn 4x4
Ferðaklúbburinn 4x4 Húsavík
Ferðaklúbburinn 4x4 Austurlandsdeild
Landssamband íslenskra vélsleðamanna
Gæsavatnafélagið

User avatar

Stebbi
Innlegg: 2098
Skráður: 31.jan 2010, 22:59
Fullt nafn: Stefán Stefánsson
Bíltegund: Eitthvað blátt
Staðsetning: Hafnarfjörður

Re: Aðeins til umhugsunar

Postfrá Stebbi » 11.mar 2014, 21:55

Kiddi wrote:......eða hreinlega að skilja kyndingu eftir í hvínandi botni (eins og dæmi er um) gerir ekkert nema spilla fyrir okkur öllum.


Eða hreinlega taka með sér kyndinguna eins og var gert í Hagavatnsskála fyrir nokkrum árum. Hvaða fáviti tekur með sér 100kg viðarkamínu heim eftir fjallaferð, það er ekki einu sinni svo kalt í Land Rover.
Hilux DC 2.4 dísel úrbræddur
Jeep Grand Cherokee 4.7 Seldur
MMC Pajero 2.5TDI 38" Seldur
Ford Econoline 44"


Til baka á “Umhverfis- og hagsmunamál”

Tengdir notendur

Notendur á þessu spjallborði: Engir skráðir notendur og 3 gestir